Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að það gæti orðið snúið fyrir Pírata að gera málamiðlanir í ríkisstjórnarsamstarfi. Þetta kom fram í viðtali við hann við Channel 4 í Bretlandi. Hann segir enn fremur að hugsjónaflokkar eins og Píratar geti lent í vandræðum þegar komi að stjórnarmyndunarviðræðum, og að þær gætu orðið nokkuð erfiðar eftir kosningarnar hér, sem fara fram 29. október.
Guðni fór til Bretlands á þriðjudag, meðal annars til að flytja fyrirlestur í Leeds á Englandi og vera viðstaddur listasýningu Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttur í London.
Spyrillinn spurði Guðna almennt út í stöðu mála á Íslandi, og sagði hana um margt forvitnilega. Bankastjórar væru komnir í fangelsi, forsætisráðherrann hefði sagt af sér útaf Panamaskjölunum og framundan væru kosningar. „Eru þið að vísa veginn?“ spurði hann.
Guðni sagði það ekki skipta máli, heldur frekar að Íslendingar væru að reyna að taka réttar ákvarðanir. Ef það væri leiðarvísir fyrir aðrar þjóðir, þá væri það gott.
Píratar og Sjálfstæðisflokkur hafa mælst stærstu flokkarnir hér á landi á undanförnum mánuðum. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum, og kosningaspá Kjarnans, er Sjálfstæðisflokkurinn með 26 prósent fylgi en Píratar ríflega 24 prósent. Aðrir flokkar eru með töluvert minna fylgi.