Íslandsbanki hefur ráðið alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Corestar Partners ásamt fyrirtækjaráðgjöf bankans til ráðgjafar í tengslum við mótun framtíðarstefnu um eignarhlut bankans í Borgun. Corestar Partners sérhæfir sig í fyrirtækjaráðgjöf á sviði greiðsluþjónustu og er með starfsstöðvar í Sviss og Þýskalandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. „Möguleg niðurstaða ráðgjafarvinnunnar er að bankinn selji eignarhlut sinn í félaginu og færi slík sala þá fram í opnu og gagnsæju söluferli,“ segir í tilkynningunni, en Íslandsbanki er 100 prósent í eigu íslenska ríkisins.
Íslandsbanki á 63,5% hlut í Borgun og er félagið flokkað sem dótturfélag bankans. Hreinar rekstrartekjur Borgunar voru um 4,7 miljarðar króna á árinu 2015 og hagnaður um 1,5 milljarður króna. Samsvarar það um 10 prósent af rekstrartekjum bankans og rúmlega 7% hagnaðar á því tímabili.
Óhætt er að segja að viðskipti með eignarhluti í Borgun hafi dregið dilk á eftir sér, en Landsbankinn hefur ákveðið að höfða mál vegna sölu bankans á 31,2 prósent hlut í Borgun í nóvember 2014. Kaupendur voru hópur fjárfesta og stjórnendur fyrirtækisins. Kaupverðið var 2,2 milljarðar króna, en Landsbankinn telur að forsendur viðskiptanna, og þar með verðsins sem fékkst fyrir hlutinn, hefðu átt að vera aðrar. Hluturinn var ekki auglýstur til sölu og fór viðskiptin því fram í lokuðu söluferli.