Það er samhljómur um það milli Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða vegna stöðu fjölmiðla hér á landi. Þetta sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra í umræðu um rekstrarumhverfi fjölmiðla á Alþingi í dag.
Illugi sagðist sjálfur vera viss um að grípa verði til aðgerða til að bæta stöðu fjölmiðla hér á landi.
Illugi sagðist hafa kynnt þingsályktunartillögu í ríkisstjórn og í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þess efnis að á fót verði settur starfshópur með aðild allra flokka, og þeirra sem komi nýir inn eftir kosningar, sem eigi að skila tillögum að aðgerðum til að bæta stöðu fjölmiðla eigi síðar en 15. febrúar næstkomandi.
Það var Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sem var málshefjandi. Hann spurði Illuga meðal annars um virðisaukaskatt á fjölmiðla, og svaraði Illugi því til að nú væri virðisaukaskattur á fjölmiðla með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Hann sagðist telja að lausnin á vanda fjölmiðla væri að minnsta kosti að hluta til að finna í virðisaukaskattsprósentunni, en einnig þyrfti að taka fjölmiðlalögin til endurskoðunar. „Það þarf að uppfæra margt í regluverkinu til að mæta tækninýjungum.“