Laun opinberra starfsmanna eru um það bil 16 prósent lægri en starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Með samkomulagi sem ríkið gerði á mánudag um að samræma lífeyriskerfi landsmanna skuldbatt það sig til að jafna þennan mun á innan við áratug. Laun opinberra starfsmanna þurfa því að hækka um 16 prósent umfram allar almennar launahækkanir á næstu tíu árum til að takmarkið náist. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið. Niðurstaðan byggir á samanburði Hagstofu Íslands á launamun opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum markaði.
Í svarinu er þó gerður sá fyrirvari að launasamanburður milli opinbera og almenna markaðarins sé illmögulegur vegna þess að markaðirnir séu ólíkir á ýmsan hátt. Af þeim sökum töldu aðilar samkomulagsins sig ekki geta byggt frekari vinnu um launasamanburð á grunni niðurstöðu Hagstofunnar. Því varð ofan á að byggja þyrfti vinnuna „á betri forsendum og ræðast frekar á milli aðila.“
Eitt lífeyriskerfi fyrir alla
Lykilatriði í samkomulagi sem undirritað var á mánudag um að samræma opinbera og almenna lífeyriskerfið, með þeim hætti að opinberir starfsmenn njóti ekki lengur betri lífeyrisréttinda en þeir sem starfa á einkamarkaði, var að launakjör opinberra starfsmanna yrðu jöfnuð við þau sem tíðkast á almennum markaði. Samkvæmt samkomulaginu á launajöfnunin að nást innan áratugar.
Á móti eiga opinberir starfsmenn að samþykkja stórtækar breytingar á lífeyrisréttindavinnslu sinni. Stærstu breytingarnar eru þær að lífeyristökualdur verður hækkaður úr 65 í 67 ár, sjóðssöfnun mun byggja á föstum iðgjöldum og ávinnsla réttinda verður aldurstengd. Það þýðir að réttindi verða skert eða aukin eftir afkomu sjóðanna og því yngri sem fólk er þegar það byrjar að greiða, því verðmætari verða réttindi þeirra. Samhliða verður ábyrgð launagreiðenda, ríkis og sveitarfélaga, á sjóðunum afnumin.
Samráðshópur á meta launamun
Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvort að unnin hefði verið greining á því hvað það muni kosta ríki og sveitarfélög að ná launajöfnun á næstu tíu árum. Í svari ráðuneytisins segir til standi að setja á fót samráðshóp opinberra launagreiðenda og heildarsamtaka opinberra starfsmanna og er honum ætlað að setja fram áætlun um hvernig markmiði um jöfnun launa milli markaða skuli náð.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir einnig að eitt helsta verkefni hans verði að greina launamun milli markaða og þróa aðferðarfræði til að meta hann og „skilgreina viðmið um hvenær beri að leiðrétta launamun einstakra hópa.“
Verður mjög kostnaðarsamt
Það þýðir þó ekki að vísbendingar liggi ekki fyrir um hversu háar fjárhæðir sé um að ræða. Alls greiða um 35 þúsund manns í opinbera lífeyrissjóði og því er um að ræða risastóran hluta íslensks vinnumarkaðar.
Starfshópur sem vann að samkomulaginu um breytt fyrirkomulag lífeyrismála fjallaði sérstaklega um launamun á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og fékk Hagstofuna til liðs við sig við það verkefni. Niðurstaða samanburðar Hagstofunnar var að heildarlaun opinberra starfsmanna væru um það bil 16 prósent lægri en starfsmanna á almennum markaði. Því er ljóst að árlegur launakostnaður ríkis og sveitarfélaga þarf að hækka um marga milljarða króna umfram allar almennar launahækkanir til að launajöfnun verði náð innan næsta áratugar.
Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans eru þó settir umtalsverðir fyrirvarar við þessa hlutfallslegu tölu. Þar segir: „Þess ber þó að geta að Hagstofan benti ítrekað á að launasamanburður milli opinbera og almenna markaðarins væri illmögulegur þar sem þessir markaðir væru ólíkir m.t.t. starfsstétta/stéttarfélaga, menntunar og fleiri þátta. Þá eru ýmsar starfsstéttir sem vinna nær eingöngu á öðrum hvorum markaðinum. Einnig er mikill munur innan opinbera markaðarins, þ.e. milli ríkis og sveitarfélaga, sem skýrist meðal annars af ólíku menntunarstigi. Af þessum sökum töldu aðilar sig ekki geta byggt frekari vinnu um launasamanburð á þessum grunni og því varð niðurstaðan sú að þetta þyrfti bæði að byggja á betri forsendum og ræðast frekar milli aðila.“