Þingmönnum í meirihluta fjárlaganefndar hefur verið hótað vegna skýrslu Vigdísar Hauksdóttur, „Einkavæðing bankanna hin síðari“. Þetta kemur fram í bókun meirihluta nefndarinnar sem var samþykkt á fundi hennar í morgun.
Skýrslan er nú aðeins í nafni Vigdísar, og segir Vigdís við mbl.is að það hafi verið ákveðið vegna þess að hún hafi unnið skýrsluna að mestu leyti ein þó fjárlaganefnd hafi komið að því að kalla eftir upplýsingum. Skýrslan var afgreidd úr fjárlaganefnd í morgun, og ákvað hún að vísa skýrslunni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með þeirri ósk að þar verði hún tekin til meðferðar.
„Undirritaðir þingmenn ítreka mikilvægi þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hrindi af stað rannsókn og að leynd á gögnunum er varða málið verði aflétt. Þingmenn innan stjórnarmeirihluta fjárlaganefndar hafa fengið beinar hótanir um æru- og eignamissi frá háttsettum embættismanni eftir að skýrslan hafði verið kynnt. Kvörtun vegna þess verður sett í viðeigandi farveg. Í ljósi þeirra viðbragða telja undirritaðir enn frekar mikilvægt að rannsókn fari fram,“ segir í bókun þeirra.
Vigdís skrifaði ekki undir þá bókun, en það gerðu aðrir fulltrúar meirihlutans, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Páll Jóhann Pálsson og Valgerður Gunnarsdóttir.
Valgerður birtir bókunina á Facebook-síðu sinni, og segir einnig þar að umræddur embættismaður, sem þingmennirnir segja að hafi hótað æru- og eignamissi, verði nafngreindur.