Stjórnsýslu-og eftirlitsnefnd hefur efasemdir um réttmæti þess að Háskóli Íslands og Landspítalinn setji á fót nefnd til að fjalla um plastbarkamálið svokallaða, að því er segir í bréfi nefndarinnar sem sent var til Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra.
Í bréfinu segir nefndin miður að stofnanirnar tvær hafi ekki fallist á að bíða niðurstöðu nefndarinnar, og það sýni að vilji hennar hafi verið að engu hafður.
Nefndin telur óeðlilegt að þær stofnanir sem hugsanleg rannsókn geti beinst að hafi á hendi verkstjórn málsins og telur það til þess fallið að valda tortryggni og rýra trúverðugleika þeirrar rannsóknar.
Fram kom í tilkynningu frá Háskóla Íslands og Landspítalanum í byrjun mánaðarins að sjálfstæði og óháð nefnd yrði fengin til að rannsaka hvort aðkoma íslenskra stofnana eða starfsmanna þeirra hefði verið athugaverð.
Hið svokallaða plastbarkamál hefur haft víðtækar afleiðingar í Svíþjóð, og er það enn til rannsóknar hjá yfirvöldum.
Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur sagt upp stjórn Karólínska sjúkrahúsinu eftir að rannsókn leiddi í ljós að hún sýndi af sér vanrækslu með því að ráða skurðlækninn Paolo Macchiarini og leyfa honum að framkvæma skurðaðgerðir.
Macchiarini hóf störf á Karólínska sjúkrahúsinu fyrir sex árum og framkvæmdi þar þrjár plastbarkaígræðslur á árunum 2010 til 2011. Tveir af þeim sjúklingum eru látnir. Rannsókn á málinu er ekki lokið enn.