Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist hafa beðið Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra um tvennt þegar hann tók við embættinu af honum. Annars vegar að halda sér upplýstum um gang mála og hins vegar að bjóða sig ekki fram gegn honum í formannskjöri í Framsóknarflokknum. Hvorugt hafi gengið eftir. Sigmundur Davíð segir að ákvörðun Sigurðar Inga að bjóða sig fram gegn honum hafi valdið honum vonbrigðum og að hann sé slegin yfir henni. Þetta kom fram í viðtali við Sigmund Davíð í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Sigurður Ingi tilkynnti í kvöldfréttum RÚV í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins gegn Sigmundi Davíð. Ástæðan væri ólga í forystu flokksins. Hann bætti svo við í viðtali í Vikulokunum í morgun að Sigmundi Davíð hefði ekki tekist að endurheimta traust flokksmanna. Þar hafnaði Sigurður Ingi því einnig að hann hefði lofað Sigmundi Davíð því að bjóða sig ekki fram gegn honum.
Í fréttum Stöðvar 2 sagði Sigmundur Davíð að frá þeim tíma sem hann sagði af sér sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi tók við hafi þeir tveir nánast ekkert fundað. Sigurður Ingi hefði hins vegar fundað með leiðtogum allra annarra flokka. Sigmundur Davíð sagðist hafa gengið á eftir fundum og óskað eftir fundum þar sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins væri með þeim. Það hafi ekki gengið eftir.
Sigmundur Davíð endurtók einnig fyrri skoðun um að Wintris-málið, sem varð til þess að hann sagði af sér embætti forsætisráðherra, hefði verið árás þar sem markmiðið hefði verið að koma honum úr starfi.
Tveir sitjandi þingmenn hafa lýst yfir stuðningi við Sigurð Inga eftir að hann tilkynnti um formannsframboð. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag að hún myndi bjóða sig fram til varaformanns ef Sigurður Ingi yrði nýr formaður. Þá hefur Karl Garðarsson, annar leiðtoga Framsóknarflokksins í Reykjavík, lýst yfir stuðningi við Sigurð Inga.