Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að hann hefði kosið að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, skýrði aflandsfélagamál sín og eftirmál þeirra með öðrum hætti en hann hefði gert. Hann segir skiptar skoðanir innan flokksins hvort að Sigmundi Davið hafi tekist að endurreisa traust sitt á meðal Framsóknarmanna og hafnar því að hafa lofað Sigmundi Davíð að bjóða sig ekki fram gegn honum. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Inga í Vikulokunum í dag.
Sigurður Ingi lýsti því yfir í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns flokksins gegn Sigmundi Davíð. Það geri hann vegna fjöldamargra áskorana sem honum hafi borist á liðnum vikum og vegna þeirrar ólgu sem sé innan flokksins vegna stöðu Sigmundar Davíðs.
Sú ólga hefur aukist á undanförnum dögum, sérstaklega eftir frammistöðu Sigmundar Davíðs í leiðtogaþætti á RÚV á fimmtudagskvöld. Þar hafnaði hann því alfarið að ástæður þess að kosið verði í október en ekki næsta vor tengist afsögn hans sem forsætisráðherra í apríl síðastliðnum, í kjölfar Wintris-málsins.
Sigurður Ingi sagði í Vikulokunum að það hafi engum dulist að það væru skiptar skoðanir innan Framsóknarflokksins um þær útskýringar sem Sigmundur Davíð gaf í leiðtogaþættinum. Hann segir einnig að formanninum hafi ekki tekist að endurreisa traust sitt á meðal allra flokksmanna.
Aðspurður hvort að það hafi verið fullreynt hvort að Sigmundi Davíð tækist að endurreisa traust sitt sem formanns sagði Sigurður Ingi að hann hefði lagt sig allan fram við það, á því tímabili sem hann hefði gegnt starfi forsætisráðherra, að skapa svigrúm fyrir Sigmund Davíð til að gera það, skapa ró í flokknum og að koma í veg fyrir að fylkingar myndu myndast innan Framsóknar. Það hafi hann meðal annars gert með traustsyfirlýsingum á formanninn. Á síðustu vikum hafi hins vegar orðið ljóst að ætlunarverk Sigmundar Davíðs um að endurreisa traust hafi ekki tekist.
Sigurður Ingi sagði enn fremur að hann hafi ekki gefið Sigmundi Davíð loforð um að bjóða sig ekki fram gegn honum, líkt og Sigmundur Davíð hefur haldið fram. Hann hafi tilkynnt formanninum um ætlun sína að bjóða sig fram símleiðis áður en að hann gerði slíkt opinberlega í kvöldfréttum RÚV í gær. Sigurður Ingi sagði að Sigmundur Davíð hefði lýst yfir vonbrigðum sínum með ákvörðum forsætisráðherrans.
Sigurður Ingi sagðist hafa ákveðin skilning á þeim sjónarmiðum fólks sem telur að Sigmundur Davíð hafi ekki gefið nægilega traustar eða eðlilegar skýringar á Wintris-málinu. „Ég hefði kosið að hann hefði gert það með öðrum hætti. “