Hvorki Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra né Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins munu taka til máls á eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Allir aðrir formenn flokka á Alþingi munu halda fyrstu, og jafnframt lengstu, ræður sinna flokka.
Eldhúsdagsumræðurnar hefjast klukkan 19.40 í kvöld og þær skiptast í þrjár umferðir. Hver þingflokkur hefur tíu mínútur í fyrstu umferð, sex mínútur í annarri og sex mínútur í þriðju.
Lilja Alfreðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Karl Garðarsson munu tala fyrir hönd Framsóknarflokksins. Óttarr Proppé, Björt Ólafsdóttir og Páll Valur Björnsson munu tala fyrir Bjarta framtíð og Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson fyrir Pírata.
Þá munu Oddný Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Árni Páll Árnason munu tala fyrir Samfylkinguna, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal og Haraldur Benediktsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fyrir Vinstri græn.