Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, greiddi 1.103 krónur fyrir hvert atkvæði sem hann fékk í forsetakosningunum í sumar. Hann fékk rúmlega 25 þúsund atkvæði og hafnaði í fjórða sæti í kosningunum, með 13,7 prósent atkvæða. Andri Snær Magnason greiddi næst mest þeirra sem skipuðu efstu sætin í kjörinu. Hann greiddi 576 krónur fyrir hvert greitt atkvæði, en Andri Snær hlaut 14,6 prósent þeirra og lenti í þriðja sæti. Guðni Th. Jóhannesson, sem var kjörinn forseti Íslands með 39,1 prósent atkvæða, greiddi 352 krónur fyrir hvert atkvæði sem honum var greitt. Halla Tómasdóttir, sem lenti í öðru sæti í kosningunum, borgaði minnst þeirra fjögurra efstu fyrir hvert greitt atkvæði, eða 175 krónur. Hún hlaut 27,9 prósent atkvæða og varð önnur í kjörinu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Frestur frambjóðenda til að skila inn yfirliti yfir kostnað og styrki vegna framboða sinna til Ríkisendurskoðunar rann út í gær. Davíð Oddsson rak dýrustu kosningabaráttuna og eyddi samtals tæplega 28 milljónum króna í hana. Þar af eyddi Davíð rúmlega ellefu milljónum króna úr eigin vasa auk þess sem eiginkona hans styrkti framboðið um 400 þúsund krónur. Engin hinna frambjóðendanna eyddi meira en tveimur milljónum króna af eigin fé í baráttuna.
Einstaklingar og félög tengd eigendum og stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, voru áberandi í hópi styrkjenda framboðsins. Þar var einnig að finna félag tengt Eyþóri Arnalds, og félag í eigu Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar. Þá gaf Kaupfélag Skagfirðinga Davíð hámarksframlag upp á 400 þúsund krónur auk þess sem kaupfélagsstjóri þess Þórólfur Gíslason, gaf sömu upphæð í eigin nafni. Kristján Loftsson, útgerðarmaður og einn stærsti eigandi HB Granda, gaf einnig 400 þúsund krónur.
Guðni Th. hafði skilað sínu uppgjöri nokkru fyrr en flestir hinna frambjóðendanna. Hann eyddi alls um 25 milljónum króna í sitt framboð. Kostnaður við framboð Höllu nam um níu milljónum króna og Andri Snær eyddi um 15 milljónum króna í sína baráttu. Aðrir frambjóðendur ráku mun ódýrari kosningabaráttu sem kostaði einungis nokkur hundruð þúsund hver.