Tólf mánaða verðbólga í þessu mánuði mælist nú 1,8 prósent í stað 0,9 prósent í ágúst, en þessa miklu sveiflu upp á við má rekja til mistaka sem Hagstofa Íslands gerði við útreikning á vísitölu neysluverð.
Í viðtali við mbl.is segir Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, deildarstjóri á sviði vísitalna, að svo virðist sem um mannleg mistök hafi verið að ræða, en málið er nú í skoðun innanhúss.
Kostnaður við búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 3,3% (áhrif á vísitölu 0,51%), verð á fötum og skóm hækkaði um 4,7% (0,19%) og vörur og þjónusta tengd tómstundum og menningu hækkuðu um 1,0% (0,11%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 16,6% (-0,22%).
„Hækkunin á reiknaðri húsaleigu er að hluta til komin vegna leiðréttingar. Í mars 2016 hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,01%. Þá voru gerð mistök sem ollu því að megin verðbreytingin milli febrúar og mars var ekki tekin með í niðurstöðurnar fyrr en í apríl 2016. Þannig fór inn eins mánaðar tímatöf í útreikning reiknaðrar húsaleigu. Tímatöfin uppgötvaðist í september og er leiðrétt með því að taka tveggja mánaða verðbreytingu inn í niðurstöður september. Raunhækkun liðarins milli ágúst og september er 1,5% (0,24%) en hækkun um 1,8% (0,27%) er verðbreyting á milli júlí og ágúst," segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,8% en vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 0,4%.
Mistök eins og þessi eru afdrifarík fyrir fjármálamarkaði, enda hefur vísitala neysluverðs mikið vægi nær hvert sem litið er. Verðtryggð húsnæðislán heimila eru tengd henni og vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands taka mið af 2,5 prósent verðbólgumarkmiði.
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 5,25 prósent en þeir væru lækkaðir um 0,5 prósentur á síðasta vaxtaákvarðanafundi.