Ef tryggja ætti öllum einstaklingum 18 ára og eldri framfærslu sem nemur lágtekjumörkum (183 þúsund krónur á mánuði árið 2014), sem oft eru kölluð borgaralaun, þyrfti að hækka skatthlutfall landsmanna um 28 prósentustig á línuna. Það þýðir að skatthlutfallið yrði í kringum 70 prósent fyrir framteljendur í stað um 40 prósent eins og nú er. Þetta kemur fram í svari staðreynda- og samfélagsvaktar Vísindavefs Háskóla Íslands við spurningu um hvort borgaralaun séu raunhæfur kostur.
Tillaga um kortlagningu
Píratar lögðu fram þingsályktunartillögu í fyrra þar sem óskað var eftir því að skipaður yrði starfshópur til að kortleggja leiðir sem tryggi öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu. Engar tölur voru nefndar í tillögu Pírata og hún snerist einungis um kortlagningu á leiðum. Málið var tekið til umræðu í mars í þingsal og gekk til velferðarnefndar í kjölfarið. Þar er málið enn.
Hugmyndin um borgaralaun felur í sér að reglubundnar greiðslur fari frá hinu opinbera til allra borgara landsins á einstaklingsgrundvelli. Launin yrðu þá greidd án allra skilyrða og myndu þá ekki velta á vinnumarkaðsstöðu, tekjum eða öðru slíku.
Í svari staðreynda- og samfélagsvaktar Vísindavefsins, sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur skrifar, segir að ekkert ríki á Vesturlöndum hafi tekið upp borgaralaun að frátöldum einstaka tímabundnum tilraunum. „Borgaralaun hafa þó notið stuðnings víða í hinu pólitíska litrófi. Hægrimenn sem styðja borgaralaun telja að ríkisafskipti mundu minnka þar sem stjórnsýsla mundi einfaldast og einnig mundi þörf fyrir lágmarkslaun minnka. Vinstrimenn sem styðja borgaralaun telja að einstaklingar verði í minna mæli háðir markaðnum. Sú einföldun sem felst í að sameina öll tilfærslukerfi og skattkerfið í eitt heildstætt kerfi nýtur jafnframt víðtæks stuðnings.“
Skatthlutfallið færi úr 40 í 70 prósent
Helsta vandamálið við borgaralaun sé hins vegar hversu dýr þau eru. Ef stuðningur við þá sem nú þegar eru á framfærslu hins opinbera, eins og lífeyrisþega og atvinnulausa, á ekki að minnka verulega ef borgaralaun yrðu tekin upp þurfi að hækka skatthlutfallið verulega.
Í svari Arnaldar Sölva segir að útgjöld til félagsgreiðslna hafi numið 108 milljörðum króna og tekjutap við persónuafslátt nam 141 milljarði króna árið 2014. Samtals geri það tæpa 250 milljarða króna. „Sé þessari fjárhæð deilt jafnt til allra einstaklinga 18 ára og eldri mundi það gera 86 þúsund krónur á mánuði. Það er umtalsvert lægri fjárhæð en atvinnulausir og lífeyrisþegar fá frá hinu opinbera og er langt frá því að tryggja einstaklingum framfærslu umfram fátækramörk. Ef tryggja ætti öllum einstaklingum 18 ára og eldri framfærslu sem nemur lágtekjumörkum (183 þúsund krónur á mánuði árið 2014) þyrfti að hækka skatthlutfallið um 28 prósentustig á línuna. Það þýðir að skatthlutfallið yrði í kringum 70% fyrir framteljendur í stað 40% eins og það er nú. Ástæðan fyrir þessu er sú að fjöldi tekjulausra einstaklinga er ekki á framfærslu hjá hinu opinbera og þeir mundu allir fá borgaralaun. Aðrar fjármögnunarleiðir væri þó ef til vill hægt að nýta.“
Vægari borgaralaun kosta mun minna
Sökum þess hversu kostnaðarsöm borgaralaun yrðu, og að fyrirséð er að andstaða við skatthlutföll af þeirri stærðargráðu sem rætt er um hér að ofan verði mikil, hafa sumir fylgjendur borgaralauna lagt til vægari útgáfu af þeim. Í slíkri útfærslu gæti falist útgreiðsla persónuafsláttar til þeirra sem ekki fullnýta hann. „Kostnaðurinn við slíka aðgerð er einungis 11 milljarðar og gæti fjármagnast með því að hækka skatthlutfallið um 1 prósentustig (árið 2014). Tilgangur slíks kerfis væri að ná markmiðum borgaralauna að hluta til, án þess þó að hafa mikla hækkun skatthlutfallsins í för með sér,“ segir í svarinu.