Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, staðfestir að hann ætlar að halda áfram sem oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi í yfirlýsingu sem hann setti á Facebook-síðu sinni í dag.
Sigmundur Davíð segist ekki hafa rætt við fjölmiðla um niðurstöðu flokksþings Framsóknarflokksins síðustu daga, en ástæðan sé sú „að á flokksþinginu og í aðdraganda þess urðu atburðir sem ég hefði ekki trúað að gætu átt sér stað í Framsóknarflokknum. Mér fannst hins vegar ekki fara vel á að ræða það opinberlega í beinu framhaldi af niðurstöðu þingsins.“ Hann ætli enn að bíða með að ræða málin í fjölmiðlum en geti staðfest að honum sé ljúft og skylt að vinna áfram með félögum sínum í Norðausturkjördæmi. „Gagnvart þeim hef ég tekið að mér skyldur sem ég hef ekki hugsað mér að hverfa frá. Á næstu misserum mun ég þvert á móti fyrst og fremst einbeita mér að því að sinna kjördæminu og málefnum þess.“
Sigmundur Davíð þakkar einnig vinum sínum og stuðningsmönnum í flokknum og utan hans fyrir stuðning og kveðjur. „Jafnframt heiti ég því að gefast ekki upp á að berjast fyrir því sem ég tel til þess fallið að bæta samfélagið og rétta hlut þeirra sem á er hallað með hverjum sem vill ganga til þeirra verka með mér.“