Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segist hafa takmarkaða möguleika á því að óska eftir því að fram fari rannsókn á ásökunum sem komið hafa upp um misferli í tengslum við flokksþing flokksins um helgina. Þó væri eðlilegt að málið yrði skoðað. Hann segist hafa orðið vitni að undirförli, hannaðri atburðarás, endalausum spuna og algjörum skorti á prinsippum í aðdraganda og á flokksþinginu sjálfu.
Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali við hann í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrir skömmu.
Sigmundur Davíð hafnaði því algjörlega í viðtalinu að hafa reynt að skipta sér nokkuð af dagskrá flokksþingsins, líkt og aðrir hafa lýst. „Einu afskipti mín af dagskrá voru að leggja til að það yrði sérstakur tími fyrir ráðherrana að tala, sem er óvenjulegt.“ Hann sagði jafnframt að hann hefði ekki komið nálægt því að útsendingu af flokksþinginu hafi verið slitið eftir klukkutíma langa ræðu hans á fyrri degi flokksþingsins. Því var ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar ekki send út. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum sagði aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, Jóhannes Þór Skúlason, að um mistök hefði verið að ræða, en tæknimenn í Háskólabíó sögðu engin mistök hafa átt sér stað. Þeir hafi fengið fyrirmæli um að rjúfa útsendinguna eftir ræðu Sigmundar.
Þetta segir Sigmundur að sé allt hluti af hannaðri atburðarás sem þarna hafi náð hámarki, og einhverjir aðrir hafi verið að reyna að gefa til kynna að hann og aðstoðarmaður hans hafi verið þarna að verki. Honum hafi verið sagt hverjir hafi staðið á bak við þessa hönnuðu atburðarás en hann hafi ekki getað sannreynt það.
Þá endurtók Sigmundur Davíð að það hafi mætt mikill fjöldi fólks á flokksþingið á sunnudaginn, fólk sem ekki hafði tekið þátt áður. Þetta fólk hafa komið í rútum. Þegar honum var greint frá fréttaflutningi þess efnis að einu rúturnar sem hafi verið á staðnum hafi verið rútur með kínverskum ferðamönnum sagði hann: „Þetta var ekki hópur af kínverskum ferðamönnum sem ég mætti. Ég held að ég hefði alveg áttað mig á því.“
Sigmundur Davíð lýsti svo yfir eindregnum stuðningi við Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og oddvita flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann hvatti fólk til þess að mæta á kjörstað til þess að greiða henni atkvæði. „Það er gríðarlega mikilvægt að hún nái inn á þing,“ sagði Sigmundur Davíð, og sagði Lilju vera eins og hann sjálfur, hafi aldrei ætlað sér í pólitík.