Lögmenn þeirra níu fyrrverandi starfsmanna Kaupþings, sem dæmdir voru sekir í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í gær, fá samtals 337,3 milljónir króna í málsvarnarlaun vegna málsins, sem er með umfangsmestu málum sem komið hafa inn á borð dómstóla vegna hruns fjármálakerfisins, dagana 7. til 9. október 2008. Vegna málrekstrar í héraði greiðast 262,6 milljónir en í Hæstarétti 74,7 milljónir.
Ingólfur Helgason hlaut þyngstan dóm í málinu, fjögurra og hálfs árs fangelsi. Bjarki H. Diego hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Einar Pálmi Sigmundsson tveggja ára skilorðsbundinn dóm og Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm. Sigurður Einarsson fékk eins árs hegningarauka við þann fjögurra ára dóm sem hann hlaut í Al Thani-málinu. Magnúsi Guðmundssyni og Björk Þórarinsdóttur var ekki gerð sérstök refsing fyrir þau brot sem þau voru dæmd fyrir. Dóm Hæstaréttar má lesa hér.
Refsing Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, var þyngd og honum gerður sex mánaða hegningarauki.
Hæstu málsvarlaunin komu í hlut Harðar Felix Harðarsonar, lögmanns Hreiðars Más Sigurðssonar, en honum voru dæmdar 47,9 milljónir króna í málsvarnarlaun í héraði. Vegna málrekstrar í Hæstarétti greiðast 12,9 milljónir og greiðast það allt úr vasa Hreiðars Más. Málsvarnarlaun Harðar eru því rúmlega 60 milljónir vegna málsins.
Lögmaður Sigurðar Einarssonar, Gestur Jónsson, fær 35,1 milljón króna í málsvarnarlaun vegna málarekstrar í héraði. Vegna málsins í Hæstarétti greiðir Sigurður Gesti 6,4 milljónir króna.
Lögmaður Ingólfs Helgasonar, Grímur Sigurðsson, fær 41,2 milljónir króna vegna málarekstrar í héraði. Vegna málsins í Hæstarétti þarf Ingólfur að greiða Grími 16,6 milljónir króna, og því samtals 57,8 milljónir króna.
Málsvarnarlaun Kristínar Edwald, lögmanns Magnúsar Guðmundssonar, voru 19,8 milljónir og áttu þau að greiðast að öllu leyti úr ríkissjóði, samkvæmt dómi héraðsdóms. Það sama átti við um málsvarnarlaun Halldórs Jónssonar, lögmanns Bjarkar Þórarinsdóttur, en málsvarnarlaun hans vegna málsins í héraði eru 10,7 milljónir króna.
Í dómi Hæstaréttar var þessu breytt og þurfa Magnús og Björk að greiða fjórðung málsvarnarlauna úr eigin vasa, Magnús 4,9 milljónir en Björk 2,6 milljónir.
Vegna málarekstrar í Hæstarétti þurfa þau að greiða fjórðung af launum verjenda sinna. Magnús 2,5 milljónir til Kristínar og Björk 1,4 milljónir til Helgu Melkorku Óttarsdóttur. Úr ríkissjóði fær Kristín 7,5 milljónir og Helga Melkorka fær 4,1 milljón.
Lögmaður Bjarka Diego, Jóhannes Sigurðsson, fær 25,2 milljónir króna í málsvarnarlaun vegna málsins í héraði og 5,5 milljónir vegna málarekstrar í Hæstarétti.
Aðrir ákærðu í málinu, Einar Pálmi, Birnir Sær og Pétur Kristinn, þurfa að greiða sínum lögmönnum samtals 63,8 milljónir vegna málsins í héraði. Málsvarnarlaun Gizurar Bergsteinssonar, lögmanns Einars Pálma, eru 14,6 milljónir, og lögmenn Birnis Sæs og Péturs Kristins, Halldór Jónsson og Vífill Harðarson, fá 24,6 milljónir króna hvor í málsvarnarlaun.
Vegna málarekstrar í Hæstarétti þarf Einar Pálmi að greiða Gizuri 5,3 milljónir, Birnir Sær þarf að greiða Halldóri 6,3 milljónir og Pétur Kristinn Vífli 6,2 milljónir.
Til viðbótar þessu fékk Brynjar Níelsson, lögmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, 1,6 milljónir króna í málsvarnarlaun vegna vinnu fyrir Bjarka Diego á rannsóknarstigi málsins, en Bjarki þarf að greiða honum þau laun að fullu sjálfur, samkvæmt dómi héraðsdóms.
Annan áfrýjunarkostnað, 3,5 milljónir króna, skulu ákærðu greiða óskipt, en ákærðu Magnús og Björk þó að fjórðungi hvort, að því er segir í dómi Hæstaréttar.