Verð á kílóvattstund af raforku hjá Orkuveitur Reykjavíkur (OR) hefur hækkað um 48 prósent frá árinu 2010. Dreifing raforku hefur hækkað um 68 prósent og flutningur hennar um 22 prósent. Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hefur á sama tímabili hækkað um 23 prósent. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag þar sem farið er yfir rekstur OR.
Í blaðinu segir að þessar hækkanir þýði að rafmagnsreikningur meðalstórs heimilis, sem notar 350 kílóvattstundir af raforku á mánuði, hefur hækkað úr 48.600 krónum í 74.700 krónur á ári, eða um 26.000 krónur. Ef gjaldskrá OR hefði fylgt vísitölu neysluverðs væri rafmagnsreikningurinn 59.800 krónur, eða 14.900 krónum lægri en hann er.
Viðsnúningur í rekstri
OR, sem er að stærstu leyti í eigu Reykjavíkurborgar, hefur unnið eftir svokölluðu „Plani“ á undanförnum árum, sem sett var saman til að bjarga fjárhag fyrirtækisins. Hann var afleitur eftir mikil fjárfestingaævintýri fyrir hrun, sem fólu meðal annars í sér áætlanir um hraða uppbyggingu jarðvarmavirkjanna. Stærsta fjárfestingin sem ráðist var í, Hellisheiðarvirkjun, hefur ekki staðið undir væntingum og ekki er næg gufa á því svæði sem hún átti að sækja orku á til að reka virkjunina á fullum afköstum. Því var brugðið á það ráð að sækja gufu á Hverahlíðarsvæðið fyrir hana til að vinna úr. Í Viðskiptablaðinu segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, að vinnslugeta þeirra jarðhitasvæða sem áttu að duga fyrir Hellisheiðarvirkjun sé enn að dala, sem sé alvarlegt mál.
Heilt yfir hefur „Planið“ þó gengið vel. Viðsnúningur hefur orðið í rekstri OR og aðgerðaáætlunin skilað fyrirtækinu 57,2 milljörðum, sem er 8,5 milljörðum meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Stefnt er að því að greiða eigendur OR um fimm milljarða króna arð á næsta ári, en það verður í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem OR mun greiða slíkan.
Vildu lækka orkugjöld heimila
Auknar tekjur vegna „leiðréttingar“ gjaldskrár nema 9,9 milljörðum króna á tímabilinu frá 2011 fram á mitt ár 2016. Það er 2,7 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í „Planinu“. Í Viðskiptablaðinu er bent á að OR selji aðallega orku á almennum markaði til heimila og minni fyrirtækja. Eini stóri stóriðjuviðskiptavinur samstæðunnar er Norðurál, en sala til þess fyrirtækis nemur um 12 prósent af heildartekjum OR á ári.
Auknar álögur á viðskiptavini OR í gegnum gjaldskrárhækkanir var til umræðu í borgarráði Reykjavíkur í síðustu viku. Þar lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram tillögur um að OR ætti að gera áætlun um hvernig lækka mætti orkugjöld á heimili. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, sem mynda meirihluta í borginni, felldu tillöguna.