Ríkisstjórn Íslands leggur til breytingar á almannatryggingafrumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi, á þann hátt að lífeyrisgreiðslur bæði aldraðra og öryrkja hækki í 280 þúsund krónur um áramótin og 300 þúsund krónur frá ársbyrjun 2018.
Þá verði sett á frítekjumark á allar tekjur eldri borgara, sem verði 25 þúsund krónur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkisstjórninni, en þar segir að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi ríkisstjórnarinnar í dag, í kjölfar ábendinga um frumvarpið. Það hefur verið harðlega gagnrýnt, ekki síst þessi atriði sem nú á að breyta.
„Í umræðu um frumvarpið hafa komið fram gagnlegar ábendingar um stöðu eldri borgara og ýmis atriði sem betur mættu fara í frumvarpinu,“ segir í tilkynningunni. „Skoðuð hafa verið áhrif aukinna framlaga til almannatrygginga á stöðu ríkisfjármála til skemmri og lengri tíma. Að lokinni þeirri athugun telur ríkisstjórnin, í ljósi ábyrgrar efnahagsstjórnunar og þess mikla árangurs sem náðst hefur á kjörtímabilinu í ríkisfjármálum, að unnt sé að stíga veigamikil skref til bættra kjara aldraðra og öryrkja. Byggist það á sterkri stöðu þjóðarbúsins og jákvæðum framtíðarhorfum.“
Því verði eldri borgurum sem haldi einir heimili tryggðar 300 þúsund krónur á mánuði frá áramótum 2018, enda hafi þeir ekki aðrar tekjur sem hafa áhrif á fjárhæð bótanna. Bæturnar eiga að hækka í 280 þúsund nú um áramótin. Sama gildir um bætur til öryrkja.
Þá verður sett frítekjumark á allar tekjur eldri borgara, lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Þetta verður undanþegið útreikningi bóta og verður 25 þúsund krónur.
Hækkun lífeyristökualdurs verður svo hraðað um 12 ár þannig að hækkun lágmarkslífeyristökualdurs fer úr 67 árum í 70 á 12 árum en ekki 24 árum.
Stjórnvöld segja að þetta muni hækka bætur almannatrygginga mikið á næstu tveimur árum. Árlegur kostnaður við þetta eru 4,5 milljarðar króna til viðbótar við 5 til 5,5 milljarða sem áður var búið að reikna með öðrum breytingum á almannatryggingakerfinu.