Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að ekki liggi fyrir dagsetning um þinglok en að hann gangi út frá því að Alþingi verði slitið í þessari viku. Ekkert samkomulag liggur fyrir um þinglok þrátt fyrir stíf fundarhöld um þau að undanförnu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi verið lengi að gera upp hug sinn um hvaða mál þeir vildu setja í forgang. Það sé nú að skýrast og muni flýta öðrum málum. Þau mál sem enn bíða afgreiðslu þingsins sem lögð hefur verið áhersla á að klára eru frumvarp um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og almannatryggingafrumvarpið.
Samkvæmt upphaflegri starfsáætlun þingsins átti störfum þess að ljúka 2. september, eða fyrir rúmum mánuði síðan. Kosningar munu fara fram 29. október næstkomandi, eða eftir 19 daga.