Heimsóknir til heimilislækna eru gjaldfrjálsar í Danmörku og Bretlandi, á meðan að sjúklingar greiða fast gjald í Svíþjóð rétt eins og á Íslandi. Þetta kemur fram í staðreynda- og samfélagsvakt Vísindavefsins, sem kannaði ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra í nýlegum umræðuþætti á RÚV.
Kristján Þór sagði: „En ég hef skoðað þetta mjög víða. Ég hef hvergi rekist á neitt land hér í, ekki einu sinni næsta nágrenni við okkur, sem að við horfum nú mjög til, þar sem að heimilin greiða ekki einhvern þátt í heilbrigðiskostnaði.“
Ummæli Kristjáns Þórs eru ekki ekki í fullyrðingaformi og ekki alveg ljóst nákvæmlega hvað hann á við, og af þeim sökum hefur Staðreyndavakt Kjarnans ekki tekið afstöðu til þessara ummæla.
Staðreynda- og samfélagsvakt Vísindavefsins bendir á að það sé rétt hjá heilbrigðisráðherra ef hann á við það að ekkert heilbrigðiskerfi bjóði sjúklingum alla heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa. Kostnaðarþátttaka sjúklinga í hefðbundinni heilbrigðisþjónustu er alltaf einhver í öllum heilbrigðiskerfum. Hins vegar sé mjög misjafnt hversu mikil hún er og hvaða þjónustu sjúklingar taka þátt í að greiða.
„Þegar litið er til hlutdeildar sjúklinga í heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustuna á Íslandi kemur í ljós að hann er hærri en í öðrum félagslegum heilbrigðiskerfum sem við berum okkur saman við, að Finnlandi undanskildu. Þá kemur í ljós að almennt hefur kostnaðarhlutdeild sjúklinga lækkað á undanförnum árum í félagslegum heilbrigðiskerfum. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga á Íslandi hefur hins vegar verið breytileg frá árabili til árabils og heldur hækkað þegar til lengri tíma er litið.“
Misjafnt hverjir borga og hvað þeir borga
Líkt og fyrr segir eru heimsóknir til heimilislækna ókeypis í Danmörku og í Bretlandi, á meðan kostnaður sjúklingar er lítill á Íslandi, í Svíþjóð og víðar í Vestur-Evrópu. Þá er misjafnt hvort og þá hvaða hópar sjúklinga njóta gjaldfrelsis í heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi eru heimsóknir barna á heilsugæslu gjaldfrjálsar, og það á við víða annars staðar, en sums staðar er líka ókeypis fyrir ungmenni, aldraða, fatlaða og öryrkja að fara til heimilislæknis.
Vísindavefurinn bendir á að í flestum heilbrigðiskerfum greiði sjúklingar einhvern hluta sérfræðiþjónustu sem þeir þiggja utan legudeilda sjúkrahúsa. „Oft ræðst kostnaður við sérfræðingsheimsókn af því hvort um er að ræða tilvísun frá heimilislækni eða ekki. Með tilvísun frá heimilislækni er heimsóknin til sérfræðingsins þá ýmist ókeypis fyrir sjúklinginn eins og á við í Danmörku og Bretlandi, eða mikið ódýrari en ella. Hérlendis er kostnaður sjúklings vegna komu til sérfræðings sá sami, hvort sem sjúklingurinn hefur tilvísun frá heimilislækni eða ekki.“
Þá taka kerfi víðast hvar þátt í því að greiða sálfræðiþjónustu og tannlækningar, en það hefur ekki verið tilfelli hér á landi nema að tannlæknaþjónusta barna og aldraðra er niðurgreidd.