Enn bólar ekkert á skýrslu frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um frekari upplýsingar um það hvernig Leiðréttingin svokallaða skiptist á milli fólks, þrátt fyrir að meira en ár sé liðið frá því að níu stjórnarandstöðuþingmenn lögðu fram beiðni um skýrsluna. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, vakti athygli á þessu á þingi í morgun.
„Þessar upplýsingar hljóta að liggja fyrir og hæstv. ráðherra gerði þá betur í því að skila bara auðu og segja að hann hafi ekki upplýsingarnar ef hann hefur þær ekki. Þetta á auðvitað að vera löngu komið, herra forseti. Þetta er ekki boðlegt,“ sagði Katrín. Hún sagði að henni hefði verið sagt að rekið hafi verið eftir skýrslunni í ráðuneytinu. „Ég fer nú að velta því fyrir mér hvernig hæstvirtir ráðherrar ætla að sinna skyldum sínum gagnvart þinginu þegar þeir komast upp með það í heilt ár að svara ekki skýrslubeiðni frá níu þingmönnum úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum.“
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist ætla að kanna hvernig á þessu stæði og hvers vegna skýrslan væri ekki komin til Alþingis.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með Katrínu og sagði vinnubrögðin í málinu til háborinnar skammar, að það skuli dragast í heilt ár að bregðast við skýrslubeiðni um stærsta kosningaloforðið. „Maður spyr sig þá hvort þarna séu spurningar sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra treysti sér ekki til þess að upplýsa um svörin við. Þarna er spurt um tekjur, eignir, hverjir fengu niðurgreiðsluna. Er það ekki einmitt eins og bent hefur verið á að þarna var ríku fólki rétt ríkisfé og stuðningur? Ég leyfi mér að fullyrða að þess vegna sé skýrslan ekki komin fram. Meðan ég fæ ekki aðrar skýringar held ég mig við þessa.“
Vilja upplýsingar um skiptingu 80 milljarða
Skýrslubeiðnin var samþykkt fyrir ári síðan, eftir að fyrri skýrsla Bjarna um málið þótti ekki svara öllum spurningum sem hún átti að gera.
Þingmennirnir fóru meðal annars fram á að fá að vita hvernig heildarupphæð leiðréttingarinnar, um 80,4 milljörðum króna, skiptist eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækkunar eða ekki og hvernig heildarupphæðin dreifist á milli allra framteljenda eftir hreinum eignum.
Í greinargerð sem fylgdi beiðninni segir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi lagt fram fyrirspurn í 15 liðum um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána 11. nóvember 2014. Þar segir ennfremur: „Tæpum mánuði seinna barst „svar“ fjármála- og efnahagsráðherra þar sem engri spurningu var svarað efnislega en svörum lofað á vorþingi með framlagningu sérstakrar skýrslu ráðherra um aðgerðina. Málið olli nokkru uppnámi á Alþingi og svaraði ráðherra í kjölfarið fimm af 15 spurningum þingmannsins 29. janúar. Beðið var eftir frekari svörum í fimm mánuði til viðbótar og 29. júní sl. birti fjármála- og efnahagsráðherra svo loks skýrslu sína um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðisveðlána (809. mál). Skýrslan svarar því miður ekki öllum þeim spurningum sem settar voru fram í fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur tæpum átta mánuðum áður. Sérstaklega vantar svör við 1., 2. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar og er hér leitast við að fá loksins svör við þessum spurningum. Að auki er farið fram á upplýsingar um hlutfall skuldaniðurfærslunnar eftir eignastöðu og eftir tekjum miðað við árið 2014, en upplýsingar þar að lútandi ættu nú í sumar að geta verið unnar úr skattframtölum fyrir það ár.“
Spurningarnar fimm sem stjórnarandstöðuþingmennirnir vilja fá svör við eru eftirfarandi:
- Hvernig skiptist heildarupphæð þeirrar fjárhæðar sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga milli beinnar höfuðstólslækkunar á fasteignaveðlánum einstaklinga og frádráttarliða, svo sem fasteignaveðkrafna án veðtrygginga, vanskila og greiðslujöfnunarreikninga?
- Hverjir eru frádráttarliðirnir og hver er skiptingin milli þeirra í krónum talið?
- Hvert er heildarhlutfall beinnar höfuðstólslækkunar, þ.e. lækkunar höfuðstóls að undanskildum frádráttarliðum, af verðtryggðum fasteignaveðlánum?
- Hvernig dreifist heildarupphæðin sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækkunar eða ekki? Hvert er hlutfall heildarupphæðarinnar sem skiptist niður á tekjubil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi framteljenda á bak við hvert tekjubil?
- Hvernig dreifist heildarupphæðin sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána á milli allra framteljenda árið 2014 eftir hreinum eignum, þ.e. eignum umfram skuldir? Hvert er hlutfall heildarupphæðarinnar sem skiptist niður á eignabil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi framteljenda á bak við hvert eignabil?