Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, segir að leiðin sem farin var við viðtalið fræga við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, hafi verið siðleg. Um það hafi allir blaðamennirnir sem unnu að því verið sammála. Jóhannes tjáði sig um Panamaskjölin og viðtalið við Sigmund Davíð um Wintris á málþinginu Heimurinn eftir Panamaskjölin í Norræna húsinu nú síðdegis. Píratar standa fyrir fundinum.
Sigmundi Davíð hafði ekki verið greint frá því fyrirfram að hann yrði spurður um félagið Wintris í viðtalinu við sænska fréttaskýringaþáttinn Uppdrag granskning. Hann gekk út úr viðtalinu þegar Jóhannes Kr. var farinn að taka þátt í því og spyrja Sigmund Davíð um fyrirtækið á íslensku. Sigmundur Davíð, og ýmsir aðrir, hafa gagnrýnt þessa aðferðafræði, og Sigmundur Davíð hefur reyndar talað um árás á sig í þessu samhengi.
„Vitandi að Ísland er lítið land og allir vita allt, ef ég sem nokkuð þekktur blaðamaður á Íslandi hefði tekið upp símann og hringt og spurt um fyrirtæki sem heitir Wintris, þá myndi það fréttast hratt. Ég gat ekki gert það fyrr en bara rétt áður en fréttin fór í loftið. Og erlendu blaðamennirnir sem unnu að þessu viðtali með mér, þeir sögðu: Ef þú býður honum í viðtal um Wintris, þá munu allir hans aðstoðarmenn fá möguleikann á því að hafa áhrif á söguna áður en þú tekur viðtal við hann. Það var mikilvægt atriði auðvitað,“ sagði Jóhannes.
Hann sagði að á þessum tíma hafi þurft að fara djúpt á internetinu til að finna nokkuð um félagið Wintris, og það eina sem fannst var að félagið væri kröfuhafi í bönkunum.
„Þannig að við ákváðum að gera þetta svona, að taka viðtalið svona, út frá hreinni blaðamennsku. Við töluðum um siðferðislega hlutann í þessu og vorum sammála um að þetta væri siðlegt. Þetta væri það stór frétt, við vorum að tala um forsætisráðherra Íslands, og líkt og erlendu kollegar mínir sögðu: Hann er forsætisráðherra og hann á að geta svarað öllum spurningum, jafnvel um aflandsfélag sem hann á.“
Jóhannes sagði mikilvægast fyrir sig að fréttin sem sögð var hafi verið rétt, og einnig að Sigmundi Davíð hafi margoft verið boðið í annað viðtal áður en umfjöllun Reykjavík Media, Kastljóss og erlendra fjölmiðla fór í loftið.
Hér að neðan er hægt að hlusta á erindi Jóhannesar.