Ekki er búið að skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga, þrátt fyrir að frestur til þess hafi runnið út í gær. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist í samtali við Kjarnann gera ráð fyrir því að málið verði klárað á morgun. Ástæða seinkunarinnar sé sú að búið hafi verið að finna formann sem svo hafi gengið úr skaftinu.
Tillagan um skipun samráðshóps var sett inn í frumvarpið af atvinnuveganefnd þingsins til þess að hjálpa til við að koma samningunum þar í gegn. Hún kvað á um að tryggja ætti aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðun búvörusamninganna, og að þeirri endurskoðun ætti að ljúka eigi síðar en árið 2019.
Félag atvinnurekenda benti á það í tilkynningu í dag að ekki væri búið að skipa hópinn þrátt fyrir að lögin geri ráð fyrir að því ætti að ljúka í gær. „Skemmst er frá því að segja að ekkert erindi hefur borist frá atvinnuvegaráðuneytinu um skipan hópsins og engin tilkynning birst á vef þess, nú daginn eftir að lögbundinn frestur ráðherra til að skipa samráðshópinn rann út,“ segir í tilkynningunni. Félag atvinnurekanda hafði verið heitið aðild að samráðshópnum, ásamt öðrum hagsmunasamtökum sem höfðu gagnrýnt verklag og innihald samninganna.
„Við vorum að þetta sé aðeins handvömm hjá ráðherra og að hópurinn verði skipaður á allra næstu dögum. Menn hljóta að vilja efna loforðin um þjóðarsátt og þjóðarsamtal fyrir kosningar,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í tilkynningunni.