Félag atvinnurekenda fær ekki fulltrúa í samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga, þvert á það sem formaður atvinnuveganefndar þingsins hafði boðað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekenda, en framkvæmdastjóri þess, Ólafur Stephensen, hefur sent Gunnari Braga Sveinssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem þess er óskað að þetta verði endurskoðað.
Lögbundinn frestur til að skipa hópinn rann út á þriðjudag, en ekki var búið að því þá. Félag atvinnurekenda benti á þetta.. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagðist þá í samtali við Kjarnann gera ráð fyrir því að málið yrði klárað í vikunni. Ástæða seinkunarinnar sé sú að búið hafi verið að finna formann sem svo hafi gengið úr skaftinu.
Í dag var svo tilkynnt að búið væri að skipa formann og óska eftir tilnefningum ASÍ/BSRB, Bændasamtakanna, Neytendasamtakanna, Samtaka afurðastöðva og Samtaka atvinnulífsins um fulltrúa í hópinn. Bændasamtökin fá tvo fulltrúa.
Félag atvinnurekenda segir að verið sé að halda félaginu fyrir utan starfshópinn, þrátt fyrir að hafa verið leiðandi afl í allri umræðu um aukið frelsi á sviði landbúnaðarmála. Samkvæmt búvörulögunum sé félagið líka lögbundinn umsagnaraðili. „Það liggur því fyrir að allir lögbundnir umsagnaraðilar samkvæmt búvörulögum munu eiga sæti í starfshópnum, nema Félag atvinnurekenda.“
„Sú ákvörðun ráðherra að halda mikilvægum hagsmunaaðila þannig utan við samráð, sem átti að stuðla að því að sem flest sjónarmið yrðu leidd saman, getur ekki talizt góð stjórnsýsla. FA vekur ennfremur athygli á því að eins og starfshópurinn verður skipaður að tillögu ráðherra munu ríkið og landbúnaðurinn eiga meirihluta í honum. Sú gagnrýni, sem sett var fram af hálfu FA og margra annarra hagsmunasamtaka – og meirihluti atvinnuveganefndar tók mark á – var einmitt að ekki gengi að ríkið og landbúnaðurinn véluðu ein um mál sem varðaði jafnmikla fjármuni og jafnvíðtæka hagsmuni. Í þessu ljósi fer Félag atvinnurekenda fram á það við ráðherra að hann endurskoði ákvörðun sína um skipan starfshópsins.“