Harpa Jónsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands. Hún tekur við starfinu af Sigríði Benediktsdóttur, sem gegndi starfinu frá árinu 2012, en hefur nú farið til starfa hjá Yale-háskólanum í Bandaríkjunum.
Harpa hefur verið aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálastöðugleika undanfarin fimm ár. Áður var hún forstöðumaður rannsókna og viðbúnaðar hjá Seðlabankanum og við áhættustýringinu hjá Sparisjóðabankanum og Glitni. Hún hefur setið sem varamaður í stjórn Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2012. Hún er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og með meistara- og doktorspróf í verkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet.
Hagvangur annaðist formlegt ráðningarferli en valnefnd lagði mat á umsækjendur og gerði tillögu um ráðninguna. Í valnefnd sátu Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Friðrik Már Baldursson prófessor í hagfræði í Háskólanum Reykjavík, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Hlutverk fjármálastöðugleika er að greina áhættu í fjármálakerfinu og taka þátt í mótun varúðarreglna fyrir fjármálakerfið. Fjármálastöðugleiki hefur einnig umsjón með starfsemi kerfisáhættunefndar og tekur þátt í víðtæku alþjóðlegu samstarfi varðandi regluverk og eftirlit með fjármálakerfinu.