Seðlabanki Íslands hefur ekki upplýsingar um að aðrir lykilstarfsmenn bankans hafi framið trúnaðarbrot með því að deila trúnaðarupplýsingum um stöðu bankanna í aðdraganda bankahrunsins sem hægt væri að hagnýta sér. Í vikunni hefur verið greint frá því að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá bankanum, hafi viðurkennt trúnaðarbrot við skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara árið 2012. Sturla, sem hafði stöðu vitnis í málinu sem hann var yfirheyrður út af, viðurkenndi brot á trúnaði þegar hann upplýsti eiginkonu sína, sem þá var lögmaður samtaka fjármálafyrirtækja, um aðgerðir Seðlabankans í aðdraganda setningu neyðarlaganna haustið 2008. Brot Sturlu var hins vegar fyrnt.
Í svari Seðlabanka Íslands fyrir fyrirspurn Kjarnans um málið kemur fram að þar til bær yfirvöld hafi kannað hvort að lykilstarfsmenn sem bjuggu yfir innherjaupplýsingum hafi framið trúnaðarbrot í aðdraganda hrunsins. Seðlabankinn segir að honum hafi ekki borist neinar upplýsingar um að slík brot hafi átt sér stað.
Seðlabankinn bendir á sömu könnun þar til bærra yfirvalda þegar hann er spurður hvort bankinn muni rannsaka hvort að lykilstarfsmenn hans, sem bjuggu yfir innherjaupplýsingum, hafi deilt þeim upplýsingum með öðrum í kringum hrunið.
Heimildir Kjarnans herma að bæði Fjármálaeftirlitið (FME) og embætti sérstaks saksóknara hafi rannsakað ítarlega hvort þeir sem skráðir voru á innherjalista hafi átt viðskipti með fjármálagjörninga í kringum hrunið. Á meðal þeirra sem voru á þeim listum var lykilstarfsfólk Seðlabanka Íslands. Þær rannsóknir sýndu ekki fram á að nein óvenjuleg viðskipti hefðu átt sér stað í kringum það fólk sem rannsaka þyrfti nánar.
Tilkynnti um brot í síðustu viku
Sturla Pálsson tilkynnti Má Guðmundssyni seðlabankastjóra um að hann hefði játað að hafa framið trúnaðarbrot við yfirheyrslur hjá sérstöku saksóknara árið 2012 í kjölfar þess að fréttamaður Kastljóss hafði samband við hann og tjáði honum að fréttaskýringaþátturinn væri með vitnaskýrsluna undir höndum.
Kjarninn greindi frá því í gær að brot Sturlu sé fyrnt. Samkvæmt 136. grein almennra hegningarlaga skal opinber starfsmaður, sem „segir frá nokkru, er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan[...]sæta varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári. Hafi hann gert það til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, eða noti hann slíka vitneskju í því skyni, má beita fangelsi allt að 3 árum.“
Í 81. grein almennra hegningarlaga segir að sök fyrnist á tveimur árum „þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi“. Þar sem Sturla viðurkenndi að hafa brotið trúnað árið 2012 í símtali sem átti sér stað 2008 var brotið fyrnt árið 2010. Þess vegna aðhafðist sérstakur saksóknari ekkert frekar í málinu þegar það kom upp.
Fyrningin getur skipt máli við meðferð Seðlabankans
Seðlabankinn segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að á starfsmönnum hans hvíli „rík þagnarskylda og telur Seðlabankinn að afar brýnt sé að hún sé virt. Í bankanum gilda strangar reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga[...]Þá eru í gildi reglur Seðlabanka Íslands[...]um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna, auk innri reglna bankans.“
Bankinn segir að lög takmarki hvaða upplýsingar hann megi gefa um mál einstakra starfsmanna, til dæmis varðandi möguleg viðbrögð við meintum brotum. „Sé um brot að ræða fara viðbrögðin eftir eðli brots, auk þess sem reglur um fyrningu kunna að skipta máli. Mál það er hér um ræðir er nú skoðað með tilliti til þeirra reglna sem um slíkt gildir.“