Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skorar á nýja ríkisstjórn og nýtt Alþingi að gera það að sínu fyrsta verki að grípa inn í ákvörðun Kjararáðs um hækkun launa þingmanna, ráðherra og forseta Íslands. Hann segir fráleitt að laun toppanna í samfélaginu hækki langt umfram þær línur sem sömu toppar hafi lagt varðandi kjaraþróun í landinu í nafni stöðugleika. „Þetta er óréttlátt og rangt og má ekki standa,“ segir hann á Facebook-síðu sinni, um ákvörðun Kjararáðs.
Dagur segir það hlutverk nýs Alþingis að grípa inn í. „Ef þetta fær að standa þá er samstarf stjórnvalda og verkalýðshreyfingar um þróun kjaramála í fullkomnu uppnámi. Þá er stöðugleiki úr sögunni og allir tapa. Það er augljóst mál.“
Laun borgarstjóra fylgja launum forsætisráðherra og laun borgarfulltrúa eru hlutfall af þingfararkaupi. Því mun hækkunin líka hafa áhrif á kjörna fulltrúa í höfuðborginni. „Við tökum okkar laun niður einhliða ef Alþingi aðhefst ekki,“ segir Dagur um það.