Til að uppsöfnuð þörf í innviðafjárfestingu nái eðlilegum markmiðum þarf að fjárfesta fyrir um 230 milljarðar króna. Þetta kemur fram í skýrslu sem fjármálafyrirtækið Gamma hefur unnið þar sem farið er yfir stöðu hagkerfisins, helstu módel innviðafjárfestinga og þau verkefni sem blasa við til að styrkja innviði íslensks samfélags. Sagt er frá skýrslunni í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. Skýrslan kemur út í dag.
Innviðir, líkt og þeir eru skilgreindir í skýrslunni, eru tvenns konar. Annars vegar eru efnahagsinnviðir en til þeirra teljast samgöngumannvirki, flutningar, framleiðsla og flutningur orku og vatns og fjarskiptainnviðir. Hins vegar eru samfélagsinnviðir sem í felast menntun, heilbrigði, réttarkerfi, menningu og afþreyingu.
Eftir hrun hefur átt sér stað bæði gríðarlegur niðurskurður í flestum innviðum og skortur hefur verið á fjárfestingu í uppbyggingu nýrra. Líkt og áður sagði metur Gamma uppsöfnuðu innviðafjárfestingaþörfina á um 230 milljarða króna.
Í umfjöllun Markaðarins kemur fram að stofnanafjárfestar – þ.e. einkafjárfestar – hafi nú ört vaxandi áhuga á innviðafjárfestingum og að samhliða því hafi áhugi í samfélögum á að ríkið „ríkið hleypi einkaaðilum í slíkar fjárfestingar vaxið. Þetta hefur orðið til þess að til hafa orðið ýmsar leiðir við að mæta þörfinni fyrir innviðafjárfestingar, bæði hrein fjárfesting stórra sjóða í slíkum fjárfestingum sem og blandaðar leiðir ríkis, sjóða og einkaaðila.“
Gísli Hauksson, forstjóri Gamma, segir markmið skýrslurnar ekki að reyna að hafa áhrif á stefnumótun. „Markmið okkar er ekki að reka pólitík í þessu, heldur að greina verkefnin og þá möguleika sem eru fyrir hendi við fjármögnun þeirra.“