Sérstakur starfshópur sem fjármálaráðherra skipaði, og átti að leggja mat á umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu á aflandssvæðum, hefur lokið störfum og skilaði af sér skýrslu í byrjun október. Skýrslan var kynnt í ráðuneytinu í byrjun október, en var ekki kynnt fyrir Alþingi fyrir kosningar.
Samkvæmt svari frá fjármálaráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans um niðurstöður starfshópsins er stefnt að framlagningu og opinberri kynningu skýrslunnar þegar nýtt þing kemur saman.
Sigurður Ingólfsson hagfræðingur var formaður starfshópsins, sem starfaði frá því í vor. Hópurinn átti að meta umfang á aflandssvæðum og leggja mat á umfang eigna í skattaskjólum. Þá átti hópurinn að meta mögulegt tekjutap hins opinbera af umsvifum af þessu tagi.
Meðal annars fékk hópurinn bandaríska hagfræðinginn dr. James S. Henry til landsins til að funda með hópnum. Hópurinn var skipaður í vor, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindi frá því í byrjun sumars að hann bindi vonir við að hópurinn lyki störfum fyrir lok sumars og að hann myndi í framhaldinu kynna niðurstöðurnar í þinginu.