Lindarhvoll, eignarhaldsfélags í eigu íslenska ríkisins, hefur tilkynnt um sölu á hlutum sínum í Glitni Holdco, eignarhaldsfélagi utan um eftirstandandi eignir slitabús Glitnis, og Klakka ehf., áður Exista. Félagið reyndi líka að selja hlut sinn í Gamla Byr Eignarhaldsfélagi ehf., en enginn hafði áhuga á að kaupa hann. Þetta kemur fram í frétt sem birt hefur verið á heimasíðu Lindarhvols. Eignir Lindarhvolls eru stöðugleikaframlagseignir sem kröfuhafar föllnu bankanna afhentu ríkissjóði þegar samkomulag náðist við þá um uppgjör slitabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands.
Þar segir að eignirnar hafi allar verið auglýstar til sölu 29. september. Samtals hafi borist fjögur skuldbindandi tilboð í ofangreinda eignarhluti og tengdar kröfur fyrir lok tilboðsfrests. „Niðurstaðan úr opna söluferlinu var með þeim hætti að hæstu tilboðum sem bárust fyrir lok tilboðsfrests var tekið. Hæsta tilboðið og jafnframt það eina í Glitni Holdco ehf. átti SC Lowy Primary Investments Ltd., hæsta tilboðið í Klakka ehf. átti BLM fjárfestingar ehf. en engin tilboð bárust í Gamla Byr Eignarhaldsfélag ehf.“ SC Lowy Primary Investments er fjárfestingasjóður með heimilisfesti í skattaskjólinu Cayman-eyjum og BLM fjárfestingar ehf. eru í eigu Burlington Loan Management, vogunarsjóðs sem er fjármagnaður og stýrt af bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner.
DV hafði þegar greint frá því í lok október að stjórn Lindarhvols, hefði samþykkt að selja 17,7 prósent hlut ríkisins í Klakka, sem hét áður Exista, til vogunarsjóðsins Burlington Loan Management. Eftir viðskiptin á Burlington um 75 prósent hlut í Klakka, en helsta eign félagsins í dag er fjármögnunarfyrirtækið Lýsing. Burlington, sem var einn umsvifamesti kröfuhafi föllnu bankanna og keypti gríðarlegt magn af kröfum á þá á eftirmarkaði fyrir lágar fjárhæðir, mun greiða 505 milljónir króna fyrir hlut ríkisins í Klakka. Alls bárust þrjú tilboð í hlutinn. Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör, buðu næsthæst, 501 milljón króna, í hann. Þeir voru aðaleigendur Existu fyrir hrun.