Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, gagnrýnir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í morgun. Sigurður sakar Bjarna um tvískinnung fyrir að vilja rannsókn á einkavæðingu Búnaðarbankans árið 2003 en ekki á neyðarláni Seðlabankans til Kaupþings og sölu á veði í danska FIH bankanum.
„Bjarna finnst tilgangslaust að rannsaka hvort seðlabankastjóri hafi gert mistök þegar veðin í FIH bankanum voru seld árið 2012 (aðila sem Bjarni segir sjálfur að hafi stórgrætt á viðskiptunum við Seðlabankann sem tapaði milljörðum á rangri tímasetningu viðskiptanna) hvetur Bjarni til rannsóknar á einkavæðingu Búnaðarbankans fyrir tæpum fjórtán árum,“ segir Sigurður meðal annars.
Sigurður fjallar um ummæli Bjarna Benediktssonar um veð Seðlabankans í danska FIH bankanum, veð sem bankinn tók gegn 500 milljóna evra neyðarláni til Kaupþings þann 6. október 2008. Margt um þessa lánveitingu er enn á huldu, en um hana var meðal annars rætt í einu frægasta símtali Íslands, á milli Davíðs Oddssonar þáverandi Seðlabankastjóra og Geirs Haarde þáverandi forsætisráðherra. Tæpur helmingur þessa láns endurheimtist aldrei vegna þess að veðið var fjarri því jafn verðmætt og talið hafði verið. Lánið komst aftur í hámæli í október eftir að Kastljós og Stöð 2 birtu vitnaskýrslu frá árinu 2012 þar sem þetta er til umfjöllunar, og meðal annars komu í fyrsta sinn upplýsingar úr símtalinu fram.
Bjarni var spurður um málið í Reykjavík síðdegis í október, þar sem hann var meðal annars spurður hvort Seðlabankinn hafi gert mistök þegar FIH bankinn var seldur. „Það er alltaf svo auðvelt að horfa til baka, eins og þetta fólk sem dró Geir H Haarde fyrir Landsdóm gerði, við hefðum gert þetta öðruvísi og þetta varðar við lög og þarf að rannsaka og ákæra. Ég er ekki þannig innrættur að ætla setja mig í spor þeirra sem þetta höndluðu mér finnst hinsvegar nauðsynlegt að þetta sé upp á borðum. Mér finnst umræðan um það sem gerðist þennan dag þegar lánið er veitt vera víða á miklum villigötum og sérstaklega það að það eigi eftir að skoða einhverja hluti,“ sagði Bjarni og Sigurður vitnar í þessi ummæli.
Í maí hafi hins vegar verið lagt til að skipuð yrði nefnd til að rannsaka einkavæðingu Búnaðarbankans í byrjun árs 2003, með tilliti til aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser. Bjarni hefur talað fyrir slíkri rannsókn og sagt að um það sé einhugur á þingi.
Þetta finnst Sigurði tvískinnungur, og sýni að „yfirlýsing Bjarna um eigið innrætti og gagnrýni gagnvart þeim sem "hafa sífellt tilhneigingu til að horfa til baka í þeim tilgangi að rannsaka og ákæra" gildi einungis gagnvart stjórnkerfinu og embættismönnum landsins en hann hafi ekki sama umburðarlyndi gagnvart hugsanlegum mistökum þegar kemur að samfélaginu sem slíku.“
Rannsókn á kaupum S-hópsins
Rannsóknin beinist sérstaklega að hlut þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Rannsóknin verður framkvæmd eftir ábendingu Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, sem sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd um málið. Þetta eigi að gera vegna þess að Tryggvi hafi nýjar upplýsingar sem byggja á ábendingum um hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var.
Til viðbótar er tilgangur tillögunnar að „skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. ákvæði laga um rannsóknarnefndir með síðari breytingum."
Sú skýring sem gefin var um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum hefur lengi veri dregin í efa og því oft verið haldið fram í opinberri umræðu að bankinn hafi verið leppur fyrir ráðandi aðila í S-hópnum.
Þá hefur sú skoðun verið mjög ríkjandi lengi að einkavæðing ríkisbankanna tveggja, Landsbanka Íslands og Búnaðarbankans, hafi farið fram eftir meintri helmingarskiptareglu þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Samkvæmt þeirri kenningu fengu Björgólfsfeðgar, sem þóttu Sjálfstæðisflokknum þóknanlegir, að kaupa Landsbankann og Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sat áfram í bankaráði hans eftir einkavæðingu. S-hópurinn fékk að kaupa Búnaðarbankann, en hann var leiddur af Ólafi Ólafssyni kenndum við Samskip, og Finni Ingólfssyni, þá forstjóra VÍS en áður varaformanni og ráðherra Framsóknarflokksins. Finnur var þá tiltölulega nýhættur sem seðlabankastjóri.