Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og þingmaður, segir að hefðbundnir stjórnmálaflokkar þurfi að geta rætt mál sem almenningur lætur sig varða. „Flokkarnir þurfa að bjóða upp á lausnir á því hvernig hægt sé að laga gallað fjármálakerfi, þeir þurfa að þora að ræða viðkvæm en stór mál eins og innflytjendamál. Flokkar þurfa að geta rætt umdeild mál og vera reiðubúnir að verja hagsmuni ólíkra hópa samfélagsins. Þora að ræða bæði kosti og galla stórra breytinga á borð við alþjóðavæðingu, benda á að henni fylgi miklir kostir en líka gallar. Hún eigi t.d. ekki að þýða undirboð á vinnumarkaði eða undirboð á vörum eins og matvöru (af hverju leyfa menn sér að kalla það sérhagsmunagæslu ef reynt er að bæta starfsaðstæður bænda en ekki ef það sama er gert fyrir háskólakennara?).“ Þetta kemur fram í grein sem Sigmundur Davíð skrifar í Morgunblaðið í dag.
Tilefni greinarskrifanna er kosning Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna. Sigmundur Davíð segir að stjórnmálamenn á Vesturlöndum séu margir orðnir of meðvirkir með þróuninni, of líkir innbyrðis og einsleitir í nálgun sinni. „Óskrifaðar rétthugsunarreglur voru orðnar allsráðandi um það með hvaða hætti stjórnmálamenn ættu að haga sér og tjá sig. Hægt var að gefa sér fyrirfram hverju stjórnmálamenn myndu svara nánast hvaða spurningu sem þeir voru spurðir, hvort sem þeir skilgreindu sig til vinstri eða hægri. Rökræða um grundvallaratriði og leitin að nýjum og frumlegum hugmyndum hafði látið undan fyrir óttanum við að vera umdeildur, segja eitthvað sem félli ekki að rétthugsuninni eða storkaði ráðandi kerfi, jafnvel bara óttanum við að segja eitthvað sem gæti þurft að útskýra. Í staðinn reiddu menn sig á frasa um sjálfsagða hluti sem enginn gat verið á móti og storkuðu þannig engum en vöktu heldur enga umræðu og engar nýjar hugsanir.“
Þar segir hann að svokölluð samræðustjórnmál séu íraun ekki annað en samsæri stjórnmálamann gegn kjósendum. Ef það eigi að vera hlutverk stjórnmálamanna að sameinast um lægsta samnefnarann í hverju máli sé lýðræðislegur vilji fyrir borð borinn og kerfið fari þess í stað sínu fram. Það telur Sigmundur Davíð að sé hættuleg og ólýðræðisleg þróun. „Umfram allt þurfa stjórnmálaflokkar að endurheimta kjark. Þora að standa fyrir eitthvað þótt því fylgi að vera umdeildir. Stjórnmálamenn vinna beinlínis við að vera umdeildir. Það er hlutverk þeirra að gefa fólki val og láta það finna að valið skipti máli.“