Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og forseti Alþingis á síðasta kjörtímabili, verður formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva. Þetta ákvað stjórn landssambandsins á fundi sínum í gær, og málið verður lagt fyrir aðalfund sambandsins í næstu viku.
Einar K. hefur setið á þingi í rúmlega 25 ár. Hann gegndi embætti sjávarútvegsráðherra árin 2005 til 2009. Hann lét af störfum nú í október eftir að hafa verið forseti Alþingis frá árinu 2013.
Í tilkynningu frá Landssambandi fiskeldisstöðva kemur fram að ákveðið hafi verið að leita til Einars um þátttöku í stjórn vegna þess að fengur yrði af því fyrir atvinnugreinina. Hann hafi lengi bundið vonir við að fiskeldi geti svarað ákalli byggðarlaga sem hafi átt undir högg að sækja í atvinnumálu og hafi sýnt fiskeldi áhuga og skilning sem þingmaður.
„Ég hef ávallt litið á mig sem erindreka fjölþættra atvinnutækifæra í landsbyggðunum og sem stjórnarformaður LF fæ ég kærkomið tækifæri til þess að halda þeirri vegferð áfram. Ég er sannfærður um að hægt sé að vinna að uppbyggingu fiskeldis í sátt við umhverfi og lífríki náttúrunnar og hef skynjað mikinn metnað hjá fiskeldisfólki á því sviði. Fiskeldi á Íslandi er á ákveðnum tímamótum,“ er haft eftir Einari í tilkynningunni. Það sé ekki síður brýnt að eiga „náið og gott samstarf við stjórnvöld og eftirlitsstofnanir um þróun greinarinnar.“