Það var ekkert sameiginlegt skjal eða sameiginlegar tillögur frá viðræðunefnd um sjávarútvegsmál á borði formanna þeirra fimm flokka sem slitu stjórnarmyndunarviðræðum í gær. Að halda slíku fram er „einfaldlega rangt.“ Þetta segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og fulltrúi flokksins í viðræðunefnd um atvinnumál, þar með talið sjávarútveg.
Jón Steindór segir að það valdi honum vonbrigðum þegar „beinlínis er farið rangt með staðreyndir máls þegar keppst er við að kenna öðrum um hvernig fór.“ Hann hafi setið í viðræðunefndinni sem var undir stjórn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns VG.
„Að beiðni hennar settust Píratar, Samfylking, Viðreisn og Björt framtíð saman til þess að setja fram sameiginlegar tillögur (enda mestur samhljómur þar í ljósi umræðna í hópnum). Það tókst að setja fram sameiginlega hugmynd sem kynnt var Lilju Rafneyju og hún útskýrð. Þakkaði hún góða vinnu og sagðist myndi skoða þetta. Að svo búnu var fundi slitið.“
Daginn eftir hafi svo formenn flokkanna hist á fundi, þar sem lögð hafi verið fram þrjú skjöl um sjávarútvegsmál. „Sameiginleg tilllaga flokkanna fjögurra frá deginum áður, nýtt skjal með útfærslu VG - nokkurs konar gagntilboð, og nýtt skjal frá Pírötum með útfærslum sem ekki höfðu verið ræddar á vettvangi viðræðunefndarinnar. Engin afstaða var tekin á þeim fundi til þeirra.“