Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir að stöðugir tekjustofnar ríkisins hafi verið veiktir um fimmtíu til sextíu milljarða króna síðastliðin þrjú ár. Þetta valdi því að „raunverulegur rekstur ríkisins er rétt við núllið og hagsveifluleiðrétt er ríkið rekið með halla.“
Steingrímur segir þetta í aðsendri grein hér á Kjarnanum. Hann segir að afkoman nú byggist í of miklum mæli á óvenju háum arðgreiðslum, tekjum af spenntum vinnumarkaði og vaxandi eyðslu eða veltu í hagkerfinu. „Slíkar tekjur gufa hratt upp ef á móti blæs. Verið er að gera sömu „örlaga-mistökin“ og gerð voru á þensluárunum fyrir hrun. Hinn stöðugi tekjugrunnur ríkisins er veiktur og það leyfa menn sér í skjóli hverfulla froðutekna af þenslunni. Þetta háttalag er ósjálfbært og óstöðugt þegar horft er til lengri tíma. Hagstjórnarlega er þetta ráðslag jafn galið nú og það reyndist þá (sbr. niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis). Skattalækkanir við svona aðstæður eru; sprek á bálið, olía á eldinn.“
Steingrímur gagnrýnir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, í greininni. Hann segir Bjarna hafa tekið óstinnt upp og mótmælt tali um þrengri stöðu ríkisfjármála en haldið var. „Upplýsingarnar um þetta koma þó beint frá fjármálaráðuneytinu sjálfu sem góðfúslega mætti til funda við viðræðuhóp um efnahagsmál, ríkisfjármál o.fl. í nefndum stjórnarmyndunarviðræðum.“
Niðurstaðan hafi verið sú að þrátt fyrir að tekjur séu áætlaðar 16 milljörðum meiri á næsta ári en áður var talið vanti næstum 20 milljarða upp á að útgjöld sem síðasta ríkisstjórn samþykkti verði fjármögnuð. Þetta sé vegna þess að búið sé að lögfesta útgjaldaaukningu í almannatryggingakerfinu upp á ellefu milljarða, og 13,2 milljarða vanti í samgöngumál sem búið sé að samþykkja. 1,5 milljarð vantar til að hægt sé að setja þak á heilbrigðiskostnað, sem samkvæmt nýjum lögum á að vera 50 þúsund. Þá segir Steingrímur að það vanti milljarð til að fjármagna ákvarðanir fráfarandi ríkisstjórnar í nýsköpunarmálum, og fjóra milljarða vegna aukinna lífeyrisútgjalda. Þá vanti fimm milljarða til að öryrkjar fái sambærilega bót sinna mála og aldraðir.
Steingrímur segir að augljóst sé að ekki verði hægt að mæta væntingum allra um aukið fé í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. „Allra síst nú rétt eftir kosningar þar sem sumir flokkar lofuðu stórauknum útgjöldum. Gallinn er bara sá að fæstir þeirra höfðu fyrir því að segja hvernig þeir hygðust afla til þess tekna og reynast svo ekki hafa neinn vilja til þess.“