Af þeim 806 málum sem embætti sérstaks saksóknara tók við á starfstíma sínum, árin 2009 til 2015, voru 208 mál sem vörðuðu upphaflegt verkefni embættisins, rannsókn og saksókn mála sem tengdust hruninu. Af þessum 208 málum lauk embættið 173 þeirra, 27 voru í vinnslu þegar embættið var lagt niður og átta mál biðu afgreiðslu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar á embætti sérstaks saksóknara.
46 hrunmál fóru í ákærumeðferð á meðan embættið var starfandi, og endanleg dómsniðurstaða fékkst í níu málum, þar af féllu átta dómar í Hæstarétti. Sakfellt var að hluta eða öllu leyti í sjö málum en sýknað í tveimur.
Ríkisendurskoðun segir að almennt hafi meðferð hrunmálanna verið tímafrek og kostnaðarsöm. „Mörg þeirra voru flókin í rannsókn, stundum teygði rannsóknin sig út fyrir landsteinana og oft varð löng bið eftir gögnum. Oft gripu sakborningar líka til viðamikilla varna þar sem reyndi á réttarfarsleg atriði,“ segir í skýrslunni. Alls voru 94 mál í vinnslu í meira en tvö ár, og 45 af þeim voru í lengri tíma en fjögur ár í vinnslu. Lengsti rannsóknartími eins máls voru 6,4 ár.
Skorti á stuðning innanríkisráðuneytis
Ríkisendurskoðun segir að stjórnvöld hafi veitt embættinu fullnægjandi fjárhagslegan stuðning, en að nokkuð hafi skort upp á annan stuðning innanríkisráðuneytisins við embættið. „Aldrei var óskað eftir fjárlagatillögum þess og þegar embættið tók við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 1. september 2011 var athugasemdum þess lítið sinnt og ekki með formlegum hætti. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið hefði mátt standa betur að þessum málum og hvetur það til að gera árangursstjórnunarsamning við embætti héraðssaksóknara með mælanlegum og tímasettum markmiðum,“ segir í skýrslunni.
Þá er sagt að flutningur efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til sérstaks saksóknara hafi haft neikvæð áhrif á framvindu annarra mála, en innanríkisráðuneytið hefði að mati Ríkisendurskoðunar þurft að standa betur að flutningnum.
Þá var því frestað í tvígang að leggja niður embætti sérstaks saksóknara, en sú óvissa og tafir við skipun í embætti héraðssaksóknara höfðu óæskileg áhrif á rekstur og mannauð embættisins, að mati Ríkisendurskoðunar.
Í skýrslu sinni er því beint til ráðuneytisins að efla samskipti og stuðning við héraðssaksóknara, vanda þurfi flutning málaflokka og sameiningu stofnana og ljúka gerð réttaröryggisáætlunar, en það yrði stórt skref í átt að réttlátari og skilvirkari málsmeðferð.
Jafnframt er því beint að bæði ráðuneytinu og ríkislögreglustjóra að huga þurfi að uppfærslu og þróun málaskrárkerfisins sem lögreglan notar, LÖKE.