Stjórnir Virðingar hf. og Kviku banka hafa undirritað viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku. Í aðdraganda sameiningar verður eigið fé Kviku lækkað um 600 milljónir króna og lækkunin greidd til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku munu eftir samruna eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut. Frá þessu er greint í tilkynningu frá báðum aðilum.
DV greindi frá því í október að Virðing væri að reyna að eignast stóran hlut í Kviku. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, og Ármann Þorvaldsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og einn hluthafa félagsins, hefðu vikurnar á undan fundað með nokkrum af stærri hluthöfum Kviku og lýst yfir áhuga á að kaupa hlut þeirra í bankanum. Þá kom fram að það gæti skýrst á næstu vikum hvort af samrunanum yrði. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem félögin tvö reyna samruna. Um haustið 2014 áttu sér stað formlegar viðræður milli Virðingar og MP banka, sem síðar breytti nafni sínu í Kviku, um sameiningu sem runnu út í sandinn.
Í tilkynningunni vegna undirritunar viljayfirlýsingar um samruna segir: „Með sameiningu Kviku og Virðingar yrði til öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingabankamarkaði. Sameinað félag yrði einn stærsti aðili í eignastýringu á Íslandi með um 220 milljarða króna í stýringu og fjölda sjóða í rekstri s.s. verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði, framtakssjóði, fasteignasjóði, veðskuldabréfasjóði og ýmsa fagfjárfestasjóði. Auk þess myndi sameinað félag ráða yfir öflugum markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfðri lánastarfsemi og einkabankaþjónustu.
Á næstu vikum verður unnið að samkomulagi um helstu skilmála fyrir samrunanum, þ.m.t. um forsendur, gerð áreiðanleikakannana, endanlega samningsgerð og aðgerðar- og tímaáætlun. Ef sameining félaganna nær fram að ganga er stefnt að því að hún taki gildi um mitt næsta ár.“
Bókfært eigið fé Kviku nam tæplega 6,2 milljörðum króna í lok september á þessu ári. Stærstu hluthafar bankans eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, félagið Varða Capital ehf. ( í eigu Gríms A. Garðarssonar, Edward Schmidt og Jónasar H. Guðmundssonar), félagið Sigla ehf. (í eigu Tómasar Kristjánssonar, Finns Reys Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur) og Títan B ehf. (félags í eigu Skúla Mogensen).
Virðing sameinaðist Auði Capital í byrjun árs 2014. Hluthafar Virðingar eru félag í eigu Kristínar Pétursdóttur, Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, félag í eigu Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, Stafir lífeyrissjóðir, félag í eigu Ármanns Þorvaldssonar og meðfjárfesta, félag í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar og félag í eigu Kristína Jóhannesdóttur og Ásu Karenar Ásgeirsdóttur.