Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur boðað forystufólk allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi til funda á morgun. Fyrst mun Guðni hitta Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, klukkan 10 í fyrramálið, og svo koll af kolli.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu. Fundirnir munu fara fram á skrifstofum forseta á Sóleyjargötu.
Alþingismenn munu reyndar væntanlega flestir hitta forsetann í kvöld, þar sem venja er að þeir séu boðnir til veislu á Bessastöðum á fullveldisdaginn 1. desember.
Í dag var tilkynnt að ekkert yrði úr viðræðum milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Búið er að boða til þingfundar á þriðjudaginn 6. desember þrátt fyrir að engin ríkisstjórn sé í sjónmáli. Alþingi þarf að taka til meðferðar fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár.