Orkusölusamningur milli HS Orku og Norðuráls er ekki lengur í gildi, og HS Orka þarf því ekki að standa við samninginn sem var gerður vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík fyrir rúmum níu árum síðan. Álverið reis aldrei en fyrirtækið hefur samt verið fast í samningnum þar til núna.
Gerðardómur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að sökum tiltekinna kringumstæðna sé samningurinn ekki lengur í gildi og að lok samningsins séu ekki af völdum HS Orku. Þá var kröfum Norðuráls Helguvíkur í málinu hafnað. Þetta kemur fram á vef HS Orku. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir fyrirtækið ánægt að þetta langvinna mál sé nú að baki. Gerðardómur hafði haft málið til meðferðar í tvö og hálft ár.
Vegna þess að ekki hefur legið fyrir niðurstaða í málinu hefur HS Orka sem fyrr segir verið fast í samningnum við Norðurál, og því ekki getað selt öðrum áhugasömum kaupendum umrædda orku, 150 MW, sem mögulegt væri að fá úr þeim virkanakostum sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Samningurinn var að auki mjög óhagstæður fyrir HS Orku, því verðið sem hefði fengist fyrir orkuna hjá Norðuráli væri langt frá því að geta skilað viðunandi arðsemi.
Engar líkur á álveri
Fullbyggt álver í Helguvík átti að vera með árlega framleiðslugetu á bilinu 270 til 360 þúsund tonn. Til þess að byggja stærri útgáfu þess þyrfti rúmlega 600 megawött af orku.
Norðurál hefur sagst hafa hug á að byggja álver í Helguvík í fjórum áföngum. 150 megavött af orku þarf í hvern áfanga og Norðurál hefur lýst því yfir að álverið verði ekki klárað nema að búið sé að tryggja orku fyrir tvo áfanga, alls 300 megavött. Helmingur þess átti því að koma frá HS Orku. Ekki hefur tekist að tryggja þá viðbótarorku sem til þarf og lágt heimsmarkaðsverð á áli á undanförnum árum hefur ekki skapað mikinn hvata til þess að ráðast í að klára Helguvíkurverkefnið.
Michael Bless, forstjóri Century Aluminum, var spurður út í Helguvíkurálverið á fundi með fjárfestum í tilefni af hálfsársuppgjöri fyrirtækisins í júlí 2014. Þar sagði hann að það væri engin breyting á stöðu verkefnisins á milli ársfjórðunga. „Það sem við virkilega þurfum er að ríkisorkufyrirtækið, Landsvirkjun, rísi upp í leiðtogahlutverk í þessu verkefni ef við ætlum að koma hlutunum í gang í náinni framtíð“.
Engar líkur eru á því að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun muni selja orku til álvers í Helguvík. Til þess þarf heimsmarkaðsverð á áli að hækka um tugi prósenta auk þess sem Landsvirkjun telur sig einungis eiga til reiðu lítið brot af þeirri orku sem Helguvíkurálver þyrfti.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sló málið síðan enn frekar út af borðinu í lok september við sérstakar umræður á Alþingi. Þar sagði hann um fyrirhugað álver í Helguvík: „Ég sé ekki að það álver sé að verða sér út um rafmagn. Það virðist ekki vera að fæðast nein lausn á því og að öðru leyti þá sé ég ekki að það sé afl til að stefna á slík verkefni á næstunni.“ Hann bætti við að hann sæi ekki fyrir sér að álverum muni yfir höfuð fjölga á Íslandi í framtíðinni.
Fyrst fyrir gerðardóm 2010
Um 150 megawött af þeirri orku sem álverið þarfnaðist í fyrstu atrennu áttu að koma frá HS Orku, sem undirritaði orkusölusamning þess efnis í apríl 2007. HS Orka getur ekki selt þá orku til annars kaupanda á meðan að hann er í gildi. Í dag, rúmum níu árum eftir að samningurinn var undirritaður, er fyrirtækið því bundið inni í samkomulagi með þorra þeirrar orku sem það telur sig geta framleitt og selt í nánustu framtíð sem virðist ekkert vera að fara að verða að veruleika. Viðræður stóðu yfir milli HS Orku og Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, í mörg ár til að reyna að höggva á hnútinn. Þær viðræður skiluðu engum árangri.
Norðurál stefndi á endanum HS Orku fyrir gerðardóm í Svíþjóð árið 2010. Niðurstaða hans, sem var kunngjörð í desember 2011, var sú að orkusölusamningurinn ætti að standa en að hann verði að skila HS Orku viðunandi arðsemi, sem er sérstaklega skilgreind í niðurstöðunni. Þá hafnaði gerðardómurinn skaðabótakröfu Norðuráls á hendur HS Orku vegna vanefnda á samningnum.
Í raun gátu báðir deiluaðilar tekið eitthvað jákvætt út úr þeirri niðurstöðu. HS Orka var ekki skuldbundið til að selja orku á verði sem skilaði fyrirtækinu ekki arðsemi og Norðurál hélt þeim orkusölusamningi sem var því mikilvægastur til að halda voninni um álver í Helguvík lifandi.
Nýtt ferli hófst 2014
Þar sem fyrri gerðardómur skilaði í raun engri eiginlegri niðurstöðu í málinu hóf HS Orka nýtt gerðardómsferli í júlí 2014. Málsrök voru þau að ákvæði orkusölusamningsins hafi ekki verið uppfyllt og þar með sé hann ekki lengur í gildi. Norðurál taldi þetta ekki rétt og tók til varna. Upphaflega var búist er við því að málareksturinn gæti tekið allt að eitt og hálft ár og að niðurstaða myndi liggja fyrir undir lok ársins 2015.
Það frestaðist og fyrir lá að niðurstaðan ætti að verða kunngjörð fyrir lok októbermánaðar 2016. Í lok síðasta mánaðar óskaði gerðardómurinn eftir fresti út nóvembermánaðar til að komast að niðurstöðu. Nú liggur hún fyrir.