Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, munu ekki hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.
Katrín greinir frá þessu í samtali við RÚV og segir að ekkert ákveðið að hafi orðið til þessarar niðurstöðu, það sé einfaldlega of langt á milli þessara tveggja flokka. Hún segir að staðan sé snúin og útilokar ekki að komið sé að þeim tímapunkti að mynda breiða þjóðstjórn.
Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa fundað um möguleikann á myndun ríkisstjórnar undanfarna daga. Flokkarnir tveir hafa þó ekki meirihluta á þingi og þurftu því að minnsta kosti einn flokk til viðbótar til þess að geta myndað meirihlutastjórn.
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag hafa Viðreisn, Björt framtíð, Samfylkingin og Píratar rætt saman óformlega undanfarna daga.
Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar greindi frá því á X-inu í morgun. Hann segir flokkana fjóra hafa verið að reyna að finna út úr því hvað það var sem viðræður flokkanna og VG strönduðu á. Hugmyndir VG um kvótakerfið séu til að mynda lengst frá hugmyndum Viðreisnar.
Allir þessir fjórir flokkar virðist hins vegar vera á þeirri skoðun að ekki hafi verið fullreynt með samstarf þeirra. Benedikt sagði Viðreisn, Bjarta framtíð, Samfylkinguna og Pírata því hafa verið að fara yfir sínar málefnaáherslur. Þau hafi komist að því að mikill samhljómur sé á milli þeirra fjögurra í mörgum málum.