Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann telji það eðlilegt næsta skref að ræða við Bjarta framtíð og Viðreisn á ný. Frekar eigi að vinna með möguleikann á þriggja flokka stjórn en fimm flokka stjórn eða þjóðstjórn. Þetta kom fram eftir fund Bjarna með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands í morgun.
Bjarni sagðist jafnframt hafa trú á því að lausn finnist á málum, og að skýringar væru á því hvers vegna sú staða er komin upp að engar stjórnarmyndunarviðræður eru í gangi eða hafa borið árangur. „Menn hafa verið óraunsæir, koma út úr kosningabaráttunni í miklum eldmóð með sín stefnumál efst í huga og velta fyrir sér hvernig megi hrinda þeim í framkvæmd, en eru smám saman að átta sig á því að það er kannski ekki það sem skiptir mestu máli til þess að mynda ríkisstjórn.“
Guðni Th. Jóhannesson hafði boðað alla formenn flokka á sinn fund í dag á skrifstofu forseta Íslands við Sóleyjargötu. Bjarni var fyrstur í röðinni og svo kom Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. Næst mætti Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar, en hann situr nú á fundi með forsetanum.
Katrín sagði við fjölmiðla eftir fund sinn við forsetann að það væri hennar skoðun að fólk sé orðið svolítið þreytt, að minnsta kosti ætti það við um hana sjálfa. „Ég held að það væri ágætt ef við geymdum okkur frekari viðræður fram yfir helgina.“ Hún sagði nú mikilvægt að þingið geti hafist og glímt við þau mál sem þar liggi fyrir, og hún sagðist ekki hafa áhyggjur af því þó ekki sé búið að mynda ríkisstjórn.
Katrín sagðist ekki útiloka fimm flokka ríkisstjórnina sem hún leiddi viðræður um að reyna að mynda þar til í síðustu viku. Hún tók þó fram að flestir flokkarnir, en ekki allir, væru búnir að máta sig hver við annan. Framsóknarflokkurinn hefur ekki tekið þátt í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum, og sagði Katrín að hún hefði átt góðan fund með forystu Framsóknarflokksins.