Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, segir að það geti verið einfaldast í ljósi stöðunnar í íslenskum stjórnmálum að mynda þjóðstjórn og boða svo til nýrra kosninga. Þetta kemur fram í DV og Morgunblaðinu í dag.
Upp úr viðræðum Katrínar og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, slitnaði í gær. Einnig kom fram í gær að flokkarnir fjórir sem reyndu að mynda fimm flokka stjórn með VG væru farnir að ræða saman aftur, það er Samfylkingin, Píratar, Björt framtíð og Viðreisn. Flestum hafi ekki þótt sú stjórnarmyndun fullreynd.
„Það liggur fyrir að það slitnaði upp úr viðræðum þessara fimm flokka vegna þess að Viðreisn hafði ekki sannfæringu fyrir því að þetta samstarf gæti gengið upp. Ég veit ekki hvað ætti að hafa breyst í þeim efnum,“ er haft eftir Katrínu í DV. „Mér finnst kannski bara ástæða til þess að flokkarnir velti fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að mynda hérna þjóðstjórn og kjósa að nýju eftir einhvern ákveðinn tíma. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki bara einfaldast í ljósi stöðunnar.“
Leiðtogar allra flokkanna á Alþingi munu mæta til fundar við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, í dag til að ræða stöðuna sem uppi er í íslenskum stjórnmálum. Bjarni Benediktsson mun mæta fyrstur klukkan 10 og svo koll af kolli.
Búið er að boða til þingfundar næsta þriðjudag klukkan 13.30.