Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að það gæti verið betra á milli hans og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns flokksins. Það sé því miður staðreynd. „Og það er bagalegt að hann verði ekki með okkur á hátíðinni okkar í Þjóðleikhúsinu og vilji vera annars staðar. En svona verður það að vera.“ Þetta sagði Sigurður Ingi í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun í tilefni þess að Framsóknarflokkurinn er 100 ára í dag og heldur hátíð. Forsætisráðherra sagði það vera viðvarandi verkefni að bæta samskipti við Sigmund Davíð innan þingflokks Framsóknarflokksins og sagðist vona að Sigmundur Davíð fari brátt að taka þátt í þingstörfum, sem hann hefur ekki gert til þessa á nýju kjörtímabili.
100 milljónir „lítil fjárhæð“
Í viðtalinu ræddi Sigurður Ingi einnig um þá ákvörðun, sem greint var frá í frumvarpi til fjáraukalaga, að leggja 100 milljóna króna viðbótarframlag úr ríkissjóði til „Matvælalandsins Íslands“, verkefnis sem er ætlað að „treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar.“
Ástæða viðbótarframlagsins, sem er lagt til af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, er sú að gera verkefninu kleift að standa fyrir sérstöku markaðsátaki á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar innanlands. Í frumvarpinu segir: „Mikill taprekstur er á sölu sauðfjárafurða og þrátt fyrir lækkun á verði sláturleyfishafa til bænda fyrir sauðfjárafurðir er frekari aðgerða þörf. Markaðsráð kindakjöts, sem er samstarfsvettvangur bænda og sláturleyfishafa, hefur unnið markvisst að því að finna nýja markaði erlendis, en ljóst er að afsetja þarf um 800 til 1.000 tonn til að koma í veg fyrir uppnám og almenna verðfellingu á kjöti á innlendum markaði seinnipart vetrar og/eða næsta haust.“
Sigurður Ingi benti á í viðtalinu að tekjur í þeim sveitarfélögum á landinu þar sem sauðfjárrækt er aðalatvinnuvegur séu lægri en annarsstaðar. „Í því ljósi, að setja 100 milljónir. á þessum tíma vegna allskyns óáran sem bjátað hefur á erlendis, lokun Rússamarkaða, efnahagsástand dapurt í Evrópu, mikil styrking krónunnar, mjög hröð í haust, að setja það inn til að leysa þennan vanda[...]þetta er nú mjög lítil fjárhæð.“ Forsætisráðherrann bætti við að gríðarlega mikil samlægð væri á milli bænda og neytenda og mikilvægt væri fyrir neytendur að geta gengið að innlendri framleiðslu.
Sigurður Ingi ræddi einnig um ástandið í stjórnarmyndunarviðræðum og sagðist telja líkur hafa aukist á því að minnihlutastjórn verði mynduð til vors. „Af því að menn eru ekki tilbúnir til meirihlutastarfs þá væri næsta skref að segja að við erum tilbúin til að starfa saman í tiltekinn tíma, til að mynda til vors, og hafa þá kosningar að nýju. Sem er auðvitað ekki víst að leysi úr öllum vanda.“