Vinstri græn ætla ekki að standa að samþykkt frumvarps um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) sem ætlað er jafna lífeyrisréttindi í landinu. Þetta kemur fram í nefndaráliti sem Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins og fulltrúi hans í efnahags- og viðskiptanefnd, sem fylgir breytingartillögu frumvarpsins. Frumvarpið verður hins vegar afgreitt úr nefndinni nær óbreytt með meirihluta atkvæða.
Í niðurstöðu álitsins segir að fyrsti minnihluti Vinstri grænna taki undir það meginmarkmið að jafna eigi lífeyrisréttindi á Íslandi, og að það geti verið heppilegur tími til að ráðast í slíka aðgerð, þá sé óheppilegt að frumvarpið byggi á samkomulagi sem aðilar túlki með mjög ólíkum hætti. „Í því ljósi er það slæmt að Alþingi sé gefinn svo skammur tími og raun ber vitni til að taka afstöðu til slíkra grundvallarbreytinga á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Ljóst má vera að aðilar eru ósammála um túlkun á grundvallaratriðum í breytingunum sem lúta að því hvernig lífeyriskjör verða tryggð til frambúðar og hvort þau geti talist jafnverðmæt fyrir og eftir breytingar. Enn fremur eru greinilega ríkar efasemdir um að staðið verði við markmið samkomulagsins um launajöfnun milli ólíkra markaða.
Þar sem þetta eru meginatriði mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki standa að samþykkt frumvarpsins.“
Þess í stað leggur flokkurinn fram breytingartillögu um að ráðherra skuli við gildistöku laganna skipa starfshóp með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði sem greini með heildstæðum hætti þörf á því að lækka lífeyristökualdur fyrir tilteknar stéttir.
Vonin brást
Skrifað var undir samkomulag um að jafna lífeyrisréttindi launafólks í framtíðinni þann 19. september síðastliðinn. Samkvæmt því átti ekki lengur að skipta máli hvort launþegi ynni hjá hinu opinbera eða á almennum markaði, áunnin lífeyrisréttindi yrðu hin sömu. Hingað til hefur þumalputtareglan verið sú að þeir sem vinna hjá hinu opinbera hafa fengið lægri laun en þeir sem vinna hjá einkaaðilum, en betri lífeyri. Til þess að opinberir starfsmenn myndu sætta sig við jöfnun lífeyrisréttinda þarf því að jafna skekkjuna í launum. Það átti að gera innan áratugar samkvæmt samkomulaginu, en aðferðarfræðin við það var ekki útfærð nánar. Á móti átti að hækka lífeyrisaldur allra opinberra starfsmanna úr 65 í 67 ár og afnema ríkisábyrgð á opinberum lífeyrissjóðum.
Síðar kom í ljós að þeir sem skrifuðu undir samkomulagið voru ekki á einu máli um hvað það væri. Bandalaga háskólamanna, BSRB og Kennarasamband Íslands gerðu miklar athugasemdir við þinglega meðferð málsins undir lok síðasta kjörtímabils, og hafa endurtekið þær aðfinnslur nú þegar málið hefur verið lagt aftur fram. Í frumvarpinu segir: „Samtöl hafa farið fram á milli aðila um mögulega lausn og stóðu vonir til þess að sameiginleg niðurstaða fengist fyrir lok nóvember sl. en sú von brást. Þrátt fyrir að ekki hafi náðst niðurstaða milli aðila er frumvarpið nú lagt fram að nýju.“
Breytingar gerðar en samt gagnrýni
Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu þegar það var lagt aftur fram. Þar munaði mestu um að framlag ríkisins til lífeyrisaukasjóðs var hækkað í 106,8 milljarða króna og 10,4 milljarða króna greiðslu til A-deildar LSR til að koma áfallinni stöðu sjóðsins í jafnvægi. Ástæða þess að mikið liggur á að samþykkja frumvarpið fyrir áramót er að til stendur að nota stöðugleikaframlög, sem bókfærð eru sem tekjur á árinu 2016, til verksins.
Í umsögnum um frumvarpið hafa ýmsir bent á að það brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem ákveðin hætta sé fyrir hendi að áunnin réttindi glatist ef til þess kemur að ávöxtun framtíðar eða einhverjar aðrar tryggingafræðilegar forsendur bregðist.