Ákveðið var að taka 600 milljónir króna af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða milli umræðna á Alþingi í ljósi þess að mun lengri tíma tekur að ráðstafa fé sjóðsins en ráðgert hafði verið. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir auka 510 milljónum króna í sjóðinn til að efla hann. „Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu ferðamannastaða þar sem flest bendir til að fjöldi ferðamanna muni halda áfram að aukast líkt og liðin ár,“ var sagt um málið í fjárlagafrumvarpinu.
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá hafa miklir fjármunir legið óhreyfðir í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Í fjárlögum síðasta árs var ákveðið að auka framlögin um 517 milljónir króna þrátt fyrir að þá hefðu 1,2 milljarður króna legið óhreyfður í sjóðnum um langt skeið. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið greindi frá því í september í fyrra að við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár hefði komið í ljós að „umtalsverðir fjármunir“ eða 1,2 milljarðar króna, lægju enn óhreyfðir í sjóðnum. Þessum fjármunum hafði ekki enn verið ráðstafað í þau verkefni sem þeim hafði verið úthlutað til. Ýmsar ástæður væru fyrir því en ljóst væri að bæta þyrfti úr skipulagi og framkvæmd.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fær lögbundin framlög af gistináttaskatti, og vegna þess að meira innheimtist af skattinum á þessu ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir þetta ár er líka lagt til þess að sjóðurinn fái 45 milljónir króna af fjáraukalögum þessa árs til að uppfylla lögbundið framlag af skattinum.