Stjórn Kennarasambands Íslands hefur samþykkt að stefna Íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Í yfirlýsingu frá sambandinu segir að frumvarp um breytingarnar, sem var samþykkt á Alþingi í gær, sé ekki í samræmi við það samkomulag sem gert var við forystu opinberu stéttarfélaganna og því hafði það samkomulag ekkert gildi þegar Alþingi fjallaði um málið. „Þeir þingmenn sem fullyrtu að málið hefði verið unnið í samkomulagi við forystu opinberra starfsmanna töluðu því gegn betri vitund[...]Sá forsendubrestur sem félagsmenn KÍ og aðrir opinberir starfsmenn standa nú frammi fyrir gengur gegn stjórnarskrá að mati forystu KÍ og mun félagið ganga alla leið til þess að verja hagsmuni félagsmanna.,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.
Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Björt framtíð og Viðreisn mynduðu áfram meirihluta í atkvæðagreiðslu um frumvarp um breytingar á lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í gærkvöldi. Þingmenn þessara fjögurra flokka greiddu atkvæði með frumvarpinu, 38 þingmenn samtals.
Málið varðar jöfnun á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og almenna vinnumarkaðarins, og byggir á samkomulagi sem gert var fyrr á árinu. Aðilar að samkomulaginu, BSRB, BHM og KÍ, hafa mótmælt afgreiðslu málsins því samtökin segja það ekki í samræmi við samkomulagið.
Þingmenn Pírata og Vinstri grænna greiddu ýmist atkvæði á móti eða sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins, en þingmenn Samfylkingarinnar sátu allir hjá, vegna þess að vinnubrögðin við málið voru flokknum vonbrigði.