Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, er viðskiptamaður ársins að mati Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Sala Novator á íslenska fjarskiptafyritækinu Nova til bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Pt Capital Advisors fyrir rúmlega 16 milljarða króna voru valin viðskipti ársins af dómnefnd blaðsins. Sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun, sem fór fram í nóvember 2014, var valin verstu viðskipti ársins en í ár kom í ljós að kaupendur að hlutnum fengu í sinn hlut mikinn söluhagnað vegna eignarhlutar Borgunar í Visa Europe þegar það var selt til Visa Inc. Landsbankinn hafði ekki tryggt sér valrétt að eignarhlutnum eins og gert hafði verið við sölu á Valitor. Frá þessu er greint í Markaðnum í dag.
WOW air hefir vaxið mjög hratt frá því að fyrsta flug félagsins var flogið vorið 2012. Í ár hafa farþegar þess verið 1,6 milljónir talsins (voru 740 þúsund 2015) og þotur WOW air eru orðnar 12 (voru fimm 2015). Þá flýgur félagið til yfir 30 áfangastaða (voru 19 2015) í Evrópu og Norður Ameríku. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 hagnaðist félagið um 4,4 milljarða króna.
Skúli segir í viðtali við Markaðinn að enn frekari vöxtur sé fram undan. Útlit sé fyrir að hann verði um 70 prósent á næsta ári. Ferðamennirnir séu ekkert að fara frá Íslandi. Mikill vöxtur verði í flugi til Bandaríkjanna og þá sé Asíuævintýri mögulega handan við hornið. „Það er ekkert launungarmál að við horfum til Asíu og annarra fjarlægra landa. Ég sé bæði tækifæri í flugi til og frá þessum löndum til Íslands, en jafnframt endurspeglar þetta fyrst og fremst þá sýn að Ísland geti orðið mjög stór alþjóðleg tengimiðstöð fyrir flug. Miðstöðin myndi þá tengja saman Asíu, Norður-Ameríku og Evrópu.“
Stjórnvöld unnu í fyrra
Í fyrra valdi Markaðurinn samkomulag stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna um greiðslu stöðugleikaframlags og undanþágu frá fjármagnshöftum til að klára slit búa Glitnis, Landsbankans og Kaupþings sem viðskipti ársins 2015 . Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, veittu verðlaununum viðtöku.
Þá valdi dómnefndin sölu Arion banka á tíu prósent hlut í Símanum til valinna aðila á undirverði í aðdraganda skráningar félagsins á markað í október hafi verið verstu viðskipti ársins.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, var valinn viðskiptamaður ársins 2015 en mikill viðsnúningur hafði orðið í rekstri fyrirtækisins. Hann hafði hlotið sömu nafnbót hjá Frjálsri verslun.