Ivanka Trump, dóttir verðandi Bandaríkjaforsetans Donald Trump, er verðandi nágranni íslenska sendiherrans í Washington, Geirs Haarde samkvæmt bandarískum fjölmiðlum.
Trump og eiginmaður hennar, Jared Kushner, eru að flytja að 2449 Tracy Place, í Kalorama-hverfinu í Washington, samkvæmt fjölmörgum heimildarmönnum fjölmiðilsins Washingtonian. Húsið er steinsnar frá íslenska sendiráðsbústaðnum sem stendur við 2443 Kalorama Road.
Áður hefur verið greint frá því að Barack Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseti, og fjölskylda hans muni setjast að í hverfinu þegar þau flytja úr Hvíta húsinu. Þau munu flytja inn í hús við Belmont Road. Sjá má á kortinu hér að neðan hversu nálægt bæði hús Trump og Obama eru sendiráðsbústað Íslands, sem Geir H. Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir búa í.
Kalorama-hverfið er eitt dýrasta hverfið í Washington, og húsið sem Trump mun flytja inn í var keypt fyrir 5,5 milljónir Bandaríkjadala, eða 628 milljónir íslenskra króna, í desember síðastliðnum. Ekki liggur fyrir hvort hjónin keyptu húsið sjálf eða hyggjast leigja það. Það er með sex svefnherbergjum, nokkrum færri en íslenski sendiráðsbústaðurinn, sem er með tíu svefnherbergjum og 6,5 baðherbergjum. Eftir hrun var reynt að selja sendiherrabústaðinn í Washington, ásamt sendiráðsbústöðum í New York, London, Kaupmannahöfn og Osló, en ekki tókst að selja húsið á hagstæðu verði.