Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að niðurstöður prófkjara hjá Sjálfstæðisflokknum ráði því hverjir verði ráðherrar flokksins, en ekki kynjasjónarmið eða einhverja ákveðna áferð. „Lýðræðið er þannig að það var prófkjör og þar var ákveðin niðurstaða. Ég horfi til þess að menn virði niðurstöðu kosninganna,“ sagði Brynjar meðal annars í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Mikið hefur verið rætt um stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum, bæði í kringum prófkjör flokksins og nú vegna ráðherraskipunar. Aðeins ein kona leiddi lista flokksins í kosningunum, Ólöf Nordal varaformaður. Rætt hefur verið um að flokkurinn sæki aðra konu út fyrir þingflokkinn til þess að hafa jafnari kynjahlutföll í ráðherraembættum sínum. Þó hefur einnig verið nefnt að konur innan þingflokksins gætu fengið ráðherraembætti, til dæmis Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins.
Brynjar sagði málið snúast um það hverjir ræðu „við djobbið núna. Það skiptir auðvitað máli þegar þú ert orðinn æðsti handhafi framkvæmdavaldsins að þú hafir ákveðna reynslu, ákveðna þekkingu,“ sagði Brynjar.
„Það myndi engum detta í hug að 25 ára strákur sem kæmi nýr inn á þingið yrði gerður að ráðherra,“ sagði Brynjar og viðurkenndi að þar ætti hann til dæmis við Áslaugu Örnu, sem er 25 ára gömul og nýr þingmaður. „Það getur vel verið og eg tel hana sjálfur mjög efnilegan stjórnmálamann, og ég held að það sé miklu meira í henni en menn átta sig á. Ég horfi auðvitað á þetta, maður sem sjálfur hefur ráðið fólk í vinnu. Þá skiptir auðvitað máli ákveðin reynsla og það að henda fólki í djúpu laugina 25 ára nýkomin á þing, ég er ekkert viss um að það myndi gera henni einu sinni gagn, ef ég á að vera bara hreinskilinn. Það er svo skrýtið að menn eru alveg tilbúnir að gera eitthvað svona bara til að fá einhverja ásýnd eða áferð á þetta en við erum að tala samt um æðsta handhafa framkvæmdavaldsins.“
Líkt og Kjarninn hefur greint frá þykir líklegt að leitað verði út fyrir þingflokkinn að kvenkyns ráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Nöfn Svanhildar Hólm Valsdóttur, aðstoðarkonu Bjarna Benediktssonar, og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, fyrrverandi þingflokksformanns Sjálfstæðisflokks, verið nefnd í því samhengi.