Í lok ársins 2015 var uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljarðar króna, samkvæmt niðurstöðum starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera. Skýrsla nefndarinnar var gerð opinber í dag, en Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að skýrslan væri búin að vera tilbúin frá því í byrjun október. Skýrslan hefur nú verið send til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Starfshópurinn segir að mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna á aflandssvæðum geti verið allt frá 2,8 milljörðum til 6,5 milljarða á hverju ári.
„Allt bendir til þess að mest öll aflandsvistun eigna í eigu Íslendinga hafi átti sér stað fyrir fall fjármálakerfisins, en frá þeim tíma hafa orðið miklar framfarir í reglulegum upplýsingaskiptum milli landa, m.a upplýsingagjöf um bankainnstæður Íslendinga í þeim ríkjum sem samþykkt hafa reglur um upplýsingaskipti,“ segir í úrdrætti skýrslunnar.
„Fjöldi
aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldast frá 1999 fram að hruni og eignir í stýringu íslensku
bankanna í Lúxemborg 46-faldast á sama tímabili. Þessi aflandsvæðing íslenskra eigna er
öðrum þræði „þjóðernissinnuð“, því aflandsfélögin fjárfesta í stórum stíl á Íslandi. Þannig eru
56% Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar í eigu aflandsfélaga í árslok 2007, eða um 1.500 ma.kr.
Þessi félög voru að langmestu leyti í eigu Íslendinga og sama gilti um óskráð félög í
aflandseignarhaldi. Á þessum tíma má ætla að allt að 70% eignasafns eignastýringar íslensku
bankanna í Lúxemborg hafi verið bundin í íslenskum hlutabréfum,“ segir meðal annars í skýrslu hópsins.
Eins og Panamaskjölin gefi til kynna hafi umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs verið einstakt í heiminum á tímanum fyrir hrun.
Í starfshópnum áttu sæti Sigurður Ingólfsson, formaður, Andrés Þorleifsson frá
Fjármálaeftirlitinu, Anna Borgþórsdóttir Olsen frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Björn R.
Guðmundsson frá Hagstofu Íslands, Fjóla Agnarsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu,
Guðmundur Sigbergsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurður H. Ingimarsson frá
skattrannsóknastjóra og Sigurður Jensson frá ríkisskattstjóra. Starfsmaður hópsins var Íris H.
Atladóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.