Raddir heyrast um að vöxtur ferðaþjónustu sé ekki að skila sér að fullu í hagvexti á Íslandi né í tekjuaukningu hins opinbera. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera sem birt var á föstudag.
Í skýrslunni kemur fram að áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna aflandsfélaga og skattaundanskota sé 56 milljarðar króna á árunum 2006-2014 og að á hverju ári geti viðbótartap vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Í skýrslunni er rakið nokkuð ítarlega hvern áætlað tap ríkissjóðs vegna skattsvika eða löglegrar skattasniðgöngu var á árunum fyrir hrun, þegar hröð fjármálavæðing og útrás voru helstu einkenni hagþróunar á Íslandi.
Starfshópurinn skoðaði hins vegar einnig þá hagþróun sem átt hefur sér stað eftir hrun, þegar hinn öri vöxtur ferðaþjónustu hefur verið allsráðandi. Í skýrslunni segir: „Nú þegar heyrast raddir um að hann [vöxtur ferðaþjónustu] sé ekki að skila sér að fullu í hagvexti heima fyrir og tekjuaukningu hins opinbera. Undirstrika ber að enginn dómur er lagður á þetta hér. Í ljósi reynslunnar er hins vegar ágæt og almenn þumalfingursregla, að ef ætlunin er að fyrirbyggja tjónið áður en það verður að veruleika sé best að beina sjónum framar öðru að þeim greinum milliríkjaviðskipta þar sem virðisaukinn er mestur og vex hraðast hverju sinni."
Hátt í 1,8 milljónir ferðamanna komu til landsins í fyrra, eða um 40 prósent fleiri en árið 2015. Í nýliðnum desember fóru nærri 125 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð, eða 54 þúsundum fleiri en í sama mánuði árið áður. Aukningin er 76 prósent á milli ára á þessum árstíma. Frá árinu 2010 hefur fjöldi ferðamanna til landsins í desember sexfaldast. Það ár komu alls 488 þúsund ferðamenn til landsins, eða rúmur fjórðungur þess fjölda sem sótti landið heim á árinu 2016.
Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans um helstu niðurstöður í skýrslu starfshópsins hér.